Merkel fundar með Pútín í maí

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, fundar með Vladimir Pútín, Rússlandsforseta í Moskvu í maí en þetta verður fyrsta heimsókn Merkel til Rússlands í tæplega 2 ár. Pútín greindi frá heimsókninni í dag þegar hann hitti Horst Seehofer, forsætisráðherra Bæjaralands.

Merkel og Seehofer hafa eldað saman grátt silfur upp á síðkastið, en þau eru á öndverðu meiði þegar það kemur að flóttamannamálum.

Pútín bað Seehofer um að skila bestu kveðjum til Merkel þegar þeir hittust í Moskvu í dag. Talsmaður Kremlin sagði í dag að Merkel og Pútín myndu ræða stöðuna í Úkraínu á fundi sínum.

Merkel hefur verið helsti sáttasemjarinn í deilu Pútín við stjórnvöld í Úkraínu síðustu ár. Hún hefur jafnframt verið einn helsti stuðningsmaður viðskiptabanns gegn Rússlandi. Fyrrnefndur Seehofer er hinsvegar talsmaður þess að viðskiptabanninu verði aflétt.

Putin og Seehofer funduðu í Moskvu í dag.
Putin og Seehofer funduðu í Moskvu í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert