Neitaði ekki að taka í hönd Merkel

Bild hélt því fram í dag að forsetinn hefði aldrei …
Bild hélt því fram í dag að forsetinn hefði aldrei hoft í augu kanslarans. AFP

Talsmaður Donald Trump hefur hafnað því að forsetinn hafi neitað að taka í hönd Angelu Merkel kanslara Þýskalands þegar þau sátu hlið við hlið í Hvíta húsinu í vikunni. „Ég held hann hafi ekki heyrt spurninguna,“ sagði Sean Spicer í samtali við Der Spiegel.

Stirt var milli leiðtoganna á fundinum en margir fylgdust náið með viðbrögðum Merkel, sem Trump sakaði m.a. um að eyðileggja Þýskaland með stefnu sinni í málefnum flóttamanna meðan á kosningabaráttunni stóð fyrir forsetakosningarnar vestanhafs.

Heimsókn kanslarans í Hvíta húsið hófst á kurteisislegum nótum og heilsuðust leiðtogarnir með handabandi fyrir utan bygginguna. Þegar inn var komið, og myndatökur stóðu yfir, virtist Trump hins vegar hunsa Merkel þegar hún spurði hvort þau ættu að takast í hendur fyrir ljósmyndarana.

Í þýskum fjölmiðlum var fjallað um uppákomuna sem tákn um hið kalda loft milli hins varkára kanslara og hins hvatvísa forseta. Bild, mest selda dagblað Þýskalands, hélt því fram í dag að á meðan heimsókninni stóð hefði Trump aldrei haldið augnsambandi við Merkel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert