Auglýsendur sniðganga Google

Stór fyrirtæki hafa hætt að auglýsa efni á vefsíðu leitarvélarinnar …
Stór fyrirtæki hafa hætt að auglýsa efni á vefsíðu leitarvélarinnar Google og Youtube. AFP

Yfirmaður Google í Evrópu, Matthew Brittin, hefur beðist formlega afsökunar á því að auglýsingar frá fjölmörgum fyrirtækjum og stjórnvöldum birtust á undan myndböndum frá hinum ýmsu öfgahópum á Youtube. Brittin lofar jafnframt að fara yfir og herða reglur fyrirtækisins um birtingu auglýsinga í tengslum við slíkt efni. BBC greinir frá

Afsökunarbeiðnin kom eftir að fyrirtækið Marks and Spencer bættist í hóp fjölmargra fyrirtækja sem hættu nýverið að auglýsa á vefsíðum fyrirtækisins vegna birtingar auglýsinga þeirra við efni frá öfgasamtökum og hópum. 

Fyrirtækin, Audi, L'Oreal, RBS, McDonald, HSBC, Lloyds og fjölmiðlarnir BBC, Channel 4 og Guardian hafa hætt að auglýsa á vefsíðum leitarvélarinnar Google og á vefsíðunni Youtube.  

Þrátt fyrir yfirlýsingar Brittin um bót og betrun eru margir sem draga í efa að fyrirtækið muni raunverulega taka á þessu vandamáli því þetta ku ekki vera í fyrsta skipti sem slíkar kvartanir heyrast frá auglýsendum. 

Hafa styrkt öfgasinna óafvitandi

Nýleg rannsókn fjölmiðilsins Times sýnir að auglýsingar frá þekktum fyrirtækjum og samtökum hafa birst með myndböndum frá öfgahópum. Fyrir hvert þúsund sem horfir á umrætt myndband renna um 6 pund til þeirra sem gerðu myndbandið. Með öðrum orðum hafa margir auglýsendur styrkt öfgasinna óafvitandi.  

Í rannsókn Times segir jafnframt að á meðal efnis á myndböndunum birtist hatursorðræða sem meðal annars réttlætir nauðgun og annað ámóta efni.    

Þetta vekur upp enn fleiri spurningar eins og ritskoðun á efni.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert