Gerði lítið úr hlutverki Manafort

Sean Spicer, blaðafulltrúi Hvíta hússins.
Sean Spicer, blaðafulltrúi Hvíta hússins. AFP

Blaðafulltrúi Hvíta hússins gerði lítið úr tengslum Donalds Trump Bandaríkjaforseta við fyrrverandi kosningastjóra hans, Paul Manafort, á blaðamannafundi. Mikið hefur verið fjallað um meint tengsl hans við Rússa.

Að sögn Sean Spicer, blaðafulltrúa Hvíta hússins, lék Manafort „mjög takmarkað hlutverk í mjög takmarkaðan tíma“.

Manafort stjórnaði kosningabaráttu Trump á síðasta ári er hann sóttist eftir því að verða forsetaefni Repúblikanaflokksins.

Manafort hóf störf í mars og sagði upp í ágúst eftir að hafa hjálpað til við að tryggja Trump tilnefninguna.

Kosningastjórinn fyrrverandi er einn þó nokkurra aðstoðarmanna Trump sem hafa verið sakaðir um samskipti við Rússa meðan á kosningabaráttunni stóð.

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, rannsakar hvort Rússar hafi skipt sér af kosningunum í fyrra og einnig hvort Rússar hafi mögulega verið í leynimakki með Trump og aðstoðarmönnum hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert