Sýruárásum fjölgar í London

Glæpagengi eru sögð nota sýru frekar en hnífa.
Glæpagengi eru sögð nota sýru frekar en hnífa. AFP

Glæpum þar sem ætandi sýra er notuð hefur fjölgað talsvert á síðustu fjórum árum í London, samkvæmt nýjustu tölum sem BBC greinir frá. Frá árinu 2010 hefur verið tilkynnt um 1.800 árásir þar sem sýra hefur verið notuð í höfuðborg Bretlands.

Glæpaklíkur eru sagðar nota sýru í auknum mæli vegna þess að auðvelt er að nota hana og einnig er erfitt að rekja notkun hennar. Að sögn bresks afbrotafræðings eru glæpagengi farin að skipta út hnífum og öðrum vopnum í staðinn fyrir sýru.    

Í fyrra var sýra notuð í 454 glæpum en í 261 tilviki árið 2015.   

Þriðjungur árásanna var gerður í úthverfi Newham í austurhluta London. Karlmenn eru tvisvar sinnum líklegri en konur til að verða fyrir sýruárás. Í meirihluta málanna var aldrei lögð fram kæra. Frá árinu 2014 hafa um 74% rannsókna fallið niður meðal annars vegna þess að fórnarlömb hafa ekki viljað leggja fram kæru og erfitt hefur reynst að finna árásarmennina.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert