Mubarak látinn laus eftir sex ár í haldi

Hosni Mubarak, fyrrverandi forseti Egyptalands, er nú laus úr varðhaldi.
Hosni Mubarak, fyrrverandi forseti Egyptalands, er nú laus úr varðhaldi. AFP

Hosni Mubarak, fyrrverandi forseti Egyptalands hefur verið látinn laus úr varðhaldi sex árum eftir að honum var steypt af stóli.

Fréttavefur BBC hefur eftir lögfræðingi Mubarak að hann hafi yfirgefið hersjúkrahúsið í Kaíró í morgun og sé nú komin heim til sín í úthverfinu Heliopolis.

Æðsti áfrýjunardómstóll landsins fyrirskipaði fyrr í þessum mánuði að Mubarak skyldi látinn laus, eftir að dómstóllinn úrskurðaði hann bæri ekki ábyrgð á dauða þeirra sem tóku þátt í uppreisninni 2011.

Stjórnin treg að láta Mubarak lausan

Mubarak, sem er 88 ára, varð forseti Egyptalands 1981 þegar  þáverandi forseti Anwar Sadat var myrtur. Mubarak hef­ur verið í haldi á her­sjúkra­húsi í Kaíró meira og minna síðan hann var hand­tek­inn árið 2011.

Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 2012 og sagður bera ábyrgð á dauða mótmælenda af hendi liðsmanna öryggissveita hans. Mál hans var síðan tekið upp á ný og úrskurðaði dómari í maí 2015 að hægt væri að láta Mubarak lausann.

Núverandi ríkisstjórn Abdul Fattah al-Sisi forseta, var hins vegar treg að láta Mubarak lausan vegna þeirra mótmælaöldu sem það gæti valdið hjá almenningi.  Sisi var yfirmaður leyniþjónustunnar í landinu þegar Mubarak var við völd og leiddi valdatöku hersins sem steypti af stóli árið 2013 Mohammed Morsi, sem kjörinn var arftaki Mubaraks í almennum kosningum.

Talið er að rúmlega 800 manns hafi verið drepnir í átökum öryggissveita og mótmælenda í Kaíró, Alexandríu, Súez og fleiri borgum í 18 daga uppreisninni þar sem Mubarak neyddist til að segja af sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert