Slær loftslagsmálin út af borðinu

Það er ekki hægt að saka Trump um að standa …
Það er ekki hægt að saka Trump um að standa ekki við það sem hann segir, en hann hefur löngum verið efasemdamaður í loftslagsmálum og hélt því fram á sínum tíma að hlýnun jarðar væri kínverskt samsæri. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti mun í dag undirrita forsetatilskipun sem mun draga úr aðgerðum Bandaríkjamanna í loftslagsmálum í þágu þess að skapa störf, m.a. fyrir þá sem starfað hafa í kolaiðnaði. Tilskipunin mun ógilda a.m.k. sex tilskipanir Barack Obama sem miðuðu m.a. að því að draga úr kolefnislosun.

Heimildamaður CNN innan Hvíta hússins segir ríkisstjórn Trump trúa því að hægt sé að „þjóna umhverfinu og auka orkusjálfbærni á sama tíma“ með því að hvetja bandarísku umhverfisverndarstofnunina (EPA) til að einblína á eiginlegt hlutverk sitt: hreint loft og hreint vatn.

Að sögn heimildarmannsins er það mat stjórnarinnar að það sé mikilvægara að vernda bandarísk störf en að fókusa á loftslagsmál.

„Það er mál sem verðskuldar athygli. En ég tel að forsetinn hafi verið mjög skýr hvað það varðar að hann ætlar ekki að viðhalda loftslagsstefnu sem ógnar bandaríska hagkerfinu. Það er mjög einfalt.“

Tilskipunin á að tryggja að Bandaríkin séu sjálfbær í orkumálum …
Tilskipunin á að tryggja að Bandaríkin séu sjálfbær í orkumálum og skapa störf, á kostnað aðgerða í loftslagsmálum. AFP

Forsetatilskipun Trump mun m.a. ógilda tilskipun Obama frá 2013 þar sem alríkisstjórninni var fyrirskipað að undirbúa sig fyrir áhrif loftslagsbreytinga og tilskipun frá 2016 þar sem fjallað var um loftslagsbreytingar sem ógn við þjóðaröryggi.

Heimildarmaður CNN sagði bestu leiðina til að vernda umhverfið að búa við sterkt hagkerfi og benti á að ríki á borð við Indland og Kína legðu minna að mörkum hvað þetta varðar en Bandaríkjamenn.

Tilskipunin er sögð endurspegla allt það sem umhverfisverndarsinnar óttuðust þegar Trump var kjörinn forseti í nóvember 2016.

„Þessar aðgerðir eru árás á bandarísk gildi og ógna heilsu, öryggi og hagsæld allra Bandaríkjamanna,“ segir Tom Steyer, forseti NexGen Climate. „Trump er vísvitandi að eyðileggja aðgerðaáætlanir sem skapa störf og varnagla sem vernda loftið okkar og vatnið, allt til þess að leyfa mengandi fyrirtækjum að hagnast á okkar kostnað.“

Andrew Steer, framkvæmdastjóri World Resources Institute, segir tilskipunina til marks um vanhæfni Trump sem leiðtoga, þar sem honum sé að mistakast að standa vörð um heilsu Bandaríkjamanna, umhverfið og hagkerfið.

Tilskipunin miðar m.a. að því að skapa störf í kolaiðnaðinum. …
Tilskipunin miðar m.a. að því að skapa störf í kolaiðnaðinum. Á myndinni sést Trump afhenda námuverkamanni penna eftir að hann undirritar frumvarp um afnám regluverks sem miðaði að því að vernda ár fyrir mengun frá kolaðinaðinum. AFP

Forsetatilskipunin nýja er hins vegar í takt við kosningaloforð og málflutning viðskiptajöfursins, sem tísti m.a. í nóvember 2012 að „hnattræn hlýnun“ væri hugarfóstur Kínverja, skáldað til að draga úr samkeppnishæfni bandarískrar framleiðslu.

Þá hét Trump því í október 2016 að hann myndi taka fyrir fjáraustur Obama og Clinton til loftslagsmála.

Heimildarmaður CNN vildi ekki svara því með beinum hætti hvort allir embættismenn Hvíta hússins trúðu því að loftslagsbreytingar væru af mannavöldum. Nýskipaður yfirmaður EPA, Scott Pruitt, hefur hins vegar sagt að koldíoxíð sé ekki helsta orsök loftslagsbreytinga, þvert á niðurstöður flestra rannsókna.

Umræddur heimildarmaður sagði að ákvarðanir Barack Obama hefðu ekki verið hjálplegar kolaiðnaðinum og að forsetatilskipun Trump væri m.a. ætlað að  uppfylla fyrirheit hans til iðnaðarins.

„Við ætlum að koma kolanámumönnunum okkar aftur í vinnu,“ sagði Trump nýlega. „Það hefur ekki verið komið vel fram við þá en það verður gert núna.“

mbl.is