Bretar ekki að yfirgefa Evrópu

David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, varði í dag þá ákvörðun sína á sínum tíma að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um veru landsins í Evrópusambandinu. Þjóðaratkvæðið fór fram síðasta sumar þar sem meirihluti breskra kjósenda samþykkti að ganga úr sambandinu. Bresk stjórnvöld hófu formlega úrsagnarferlið í dag.

„Ég taldi rétt að boða til þjóðaratkvæðisins vegna þess að þetta mál hafði verið að eitra bresk stjórnmál árum saman. Þjóðaratkvæðinu hafði áður verið lofað en ekki staðið við það,“ sagði Cameron samkvæmt frétt AFP þar sem hann var staddur í heimsókn í Úkraínu. „Ég gaf loforð um þjóðaratkvæði og ég tel að það hafi verið rétt að gera það.“

Sjálfur barðist Cameron fyrir því að Bretar yrðu áfram innan Evrópusamabndsins. „Við héldum þjóðaratkvæðið og niðurstaðan varð eins og vitað er ekki sú sem ég sóttist eftir. En þetta voru afgerandi úrslit og það er ástæða þess að Theresa May [forsætisráðherra Bretlands] er með réttu að taka næsta skref til þess að tryggja að vilji fólksins nái fram að ganga.“

Cameron sagðist vona að Bretland yfirgæfi Evrópusambandið. Landið myndi þó áfram vinna með öðrum Evrópuríkjum á sviði öryggismála og annarra mála. Þrátt fyrir að vera að yfirgefa sambandið væri Bretland ekki að yfirgefa Evrópu eða að segja skilið við evrópsk gildi. Minnti hann á að Bretar hefðu alltaf verið fremur ófús aðildarþjóð innan Evrópusambandsins.

„Við vorum í Evrópusambandinu fremur á forsendum notagildis en tilfinninga. Við vorum þar vegna viðskipta, við vorum þar vegna samvinnunnar og ég taldi rétt að vera áfram innan sambandsins vegna þess að ég vildi meiri viðskipti og meiri samvinnu. En hins vegar sigraði hin fylkingin kosninguna og fyrir vikið verðum við að halda áfram með útgönguna.“

David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Bækur til sölu
Bækur til sölu Eylenda 1-2, Strandamenn, Jarðarbók Árna og Páls 1-11, frumútg., ...
Ertu komin í saumaskap ?
Nýjar og notaðar saumavélar í úrvali. Nýjar vélar með 3 ára ábyrgð. Notaðar véla...
Þreyttur á geymslu- ólykt í ferðavagni.
Eyðir flestri ólykt. Ertu búinn að sækja bílinn úr vetrargeymslu, er ólykt í bíl...