Moreno nýkjörinn forseti Ekvador

Sigurreifur Lenin Moreno.
Sigurreifur Lenin Moreno. AFP

Sósíalistinn Lenin Moreno sagðist „forseti allra Ekvadora“ eftir að ljóst varð að hann bar sigur úr býtum í forsetakosningunum í Ekvador sem fram fóru í dag. Keppninautur hans, íhaldsmaðurinn Guillermo Lasso, hefur borið við kosningasvikum og segist munu berjast áfram.

Stjórnmálaspekingar segja ólíklegt að Lasso takist að fá niðurstöðunum hnekkt þar sem Rafael Correa, fráfarandi forseti og vinstrimaður, þykir hafa traust tak á helstu valdastofnunum.

Moreno, sem er 64 ára baráttumaður fyrir réttindum fatlaðra, þykir heldur hófsamari en Correa. Forsetinn fráfarandi, róttækur hagfræðingur, lýsti yfir „21. aldar sósíalisma“ í Ekvador og naut þess að hnýta í Bandaríkin.

Eftirmaður hans er aftur á móti þekktur fyrir að slá á létta strengi og rétta andstæðingum sínum sáttarhönd.

Margir fylgdust náið með kosningunum sem vísbendingu um hið pólitíska „andrúmsloft“ í rómönsku Ameríku, þar sem heldur hefur hallað undan fæti hjá vinstrisinnuðum valdhöfum.

Þá andaði Julian Assange, stofnandi Wikileaks, eflaust léttar eftir að niðurstaðan lá fyrir en Lasso hafði heitið því að vísa Assange úr sendiráði Ekvador í Lundúnum þar sem hann hefur hafst við um langt skeið.

Guillermo Lasso hyggst ekki una úrslitunum.
Guillermo Lasso hyggst ekki una úrslitunum. AFP

Þegar 99,35% atkvæða höfðu verið talin greindi yfirkjörstjórn frá því að Moreno hefði hlotið 51,17% atkvæða en Lasso 48,83%.

Moreno sagðist sigurreifur verða forseti allra Ekvadora en sérstaklega þeirra fátæku, á meðan Lasso sagðist myndu leita allra leiða innan Ekvador og á alþjóðlegum vettvangi til að tryggja að hinn raunverulegi vilji fólksins næði fram að ganga.

Vinstristjórnir Venesúela, Níkaragva, Kúbu og Síle sendu Moreno árnaðaróskir en á síðustu mánuðum hafa hægristjórnir tekið við völdum í Argentínu, Brasilíu og Perú.

mbl.is