Heimurinn bregst við árásinni

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, var grátklökkur þegar hann lagði blóm …
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, var grátklökkur þegar hann lagði blóm að staðnum þar sem vöruflutningabíllinn ók inn í mannfjöldann í dag. AFP

„Hugur Bretlands er hjá fórnarlömbunum, fjölskyldum þeirra og allri Svíþjóð,“ sagði Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, á Twitter í dag eftir að fregnir bárust af hryðjuverkaárásinni í Stokkhólmi. Fjölmargir leiðtogar hafa tjáð sig um atburðina í dag og lýst yfir samstöðu með Svíum.

Johnson sagðist hafa verulegar áhyggjur vegna árásarinnar en Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði um að ræða atlögu gegn öllum ríkjum Evrópu.

„Árás á eitt aðildarríki er árás á okkur öll,“ sagði Juncker. Bætti hann við að atlagan virtist beinast að „lífsmáta okkar“. Antonio Tajani, forseti Evrópuþingsins, sagðist vera í sjokki vegna fréttanna frá Stokkhólmi.

Eiffel-turninn myrkvaður

Francois Hollande Frakklandsforseti sagði fregnirnar fylla sig hryllingi og reiði. „Frakkland lýsir samúð og samstöðu með fjölskyldum fórnarlambanna og öllum Svíum,“ sagði hann.

Borgarstjóri Parísar, Anne Hidalgo, tilkynnti á Twitter að Eiffel-turninn yrði myrkvaður í eina mínútu á miðnætti til að heiðra minningu þeirra sem léstust.

Talsmaður Angelu Merkel Þýskalandskanslara sagði Þýskaland standa sem eitt með Svíþjóð gegn hryðjuverkum og sendi fórnarlömbum og viðbragðsaðilum kveðjur.

Utanríkisráðuneyti Grikklands tísti þeim skilaboðum að Grikkir fordæmdu árásina í Svíþjóð. „Hugur okkar er hjá fjölskyldum fórnarlambanna og sænsku þjóðinni.“

Sömu skilaboð bárust frá Ungverjalandi þegar utanríkisráðuneytið þar sagði í yfirlýsingu til AFP að það fordæmdi árásina og að „sænska þjóðin gæti reitt sig á Ungverjaland í baráttunni gegn hryðjuverkum.“

„Það er óhugsandi að saklaust fólk sé á göngu á götu í miðbænum og sé svo allt í einu orðið fórnarlamb grimmilegrar árásar. Við fordæmum þennan ógeðfellda glæp.“

„Rússar gráta með Svíum“

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sagði fréttirnar hræðilegar og kom á framfæri samúðarkveðjum til kollega síns í Svíþjóð. „Hugur okkar er hjá fórnarlömbunum og eftirlifendum. Holland er reiðubúið til að aðstoða þar sem þess er þörf.“

„Í landinu okkar þekkjum við vel glæpi alþjóðlegra hryðjuverkasamtaka. Á þessum erfiða tíma gráta Rússar með Svíum,“ sagði Vladimir Pútín Rússlandsforseti í yfirlýsingu.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, sagðist fylgjast náið með þróun mála í Svíþjóð. „Samúðarkveðjur til fórnarlambanna og bestu óskir um bata til handa særðum. Við stöndum við hlið ykkar Svíþjóð.“

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, fordæmdi árásina og vottaði fórnarlömbunum samúð sína. Sagðist hann vona að þeir sem bæru ábyrgð á árásinni myndu mæta réttlætinu hið fyrsta.

„Kanada syrgir með vinum okkar Svíum á þessum erfiða tíma og við bjóðum alla mögulega aðstoð,“ sagði forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert