„Nú hækkar hitastigið til muna“

Var það tilviljun að árásin var gerð þegar forseti Kína …
Var það tilviljun að árásin var gerð þegar forseti Kína var í heimsókn hjá forseta Bandaríkjanna, spyr Magnús Þorkell Bernharðsson. AFP

Magnús Þorkell Bern­h­arðsson, pró­fess­or í sögu Mið-Aust­ur­landa við Williams Col­l­e­ge, segir stóru spurninguna sem nú blasi við eftir loftárás Bandaríkjahers á herstöð Sýrlandshers vera hvaða áhrif þetta á samskipti Rússa og Bandaríkjamanna. „Nú hækkar hitastigið til muna,“ segir hann í samtali við mbl.is spurður út í hvaða áhrif þetta geti haft á stríðið í Sýrlandi sem nú hefur geisað í sex ár. 

Hvaða áhrif getur það haft á framhald stríðsins þegar Bandaríkin og Rússar eru mögulega komnir í hár saman útaf Sýrlandi?

„Þetta er stóra spurningin. Rússar hafa fordæmt þessa aðgerð. Var það tilviljun að þessi árás var gerð akkúrat þegar Xi, forseti Kína, var í heimsókn hjá Trump? Var Trump með þessu að gefa til kynna að hann ætlar að gera eitthvað í Kóreuskaga? Er hann að senda skilaboð til Rússlands að hann ætlar nú að vinna náið með Kínverjum og veikja stöðu Rússa í Miðausturlöndum? Þetta mun án efa auka á spennuna og nú hækkar hitastigið til muna,“ segir Magnús Þorkell sem þekkir vel til stöðu mála í Sýrlandi en hann bjó meðal annars í Sýrlandi þegar hann var við nám. 

Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor við Williams College
Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor við Williams College Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Kemur ákvörðun Trump um að fyrirskipa árás á óvart?

„Já og nei. Allar götur síðan 1979 þegar Bandaríkjastjórn vill „gera eitthvað“ í Mið-Austurlöndum þá er þetta „eitthvað“ mjög oft hernaðaríhlutun. Þannig að þessi aðgerð passar mjög vel inn í þetta mynstur. Þetta er líka ekki í fyrsta sinn sem Trump ræðst á ríki í Miðausturlöndum því í síðasta mánuði var gerð árás á Jemen.

Xi Jinping forseti Kína og Donald Trump forseti Bandaríkjanna.
Xi Jinping forseti Kína og Donald Trump forseti Bandaríkjanna. AFP

En miðað við yfirlýsingar hans fram að þessu, og sérstaklega ummæli sendiherra hans hjá Sameinuðu þjóðunum í síðustu viku þar sem Nikki Haley, fulltrúi Bandaríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, lýsti því yfir að Bandaríkjastjórn stæði með ríkisstjórn Bashar al-Assad forseta Sýrlands þá er þetta kúvending.

Nikki Haley fulltrúi Bandaríkjanna hjá SÞ.
Nikki Haley fulltrúi Bandaríkjanna hjá SÞ. AFP

Trump hefur oft sagt að Bandaríkjamenn eigi mikilla hagsmuna að gæta í Sýrlandi og hann vill ekki blanda sér í þetta stríð nema til þess að sigrast á Ríki íslams. Og þar sem Sýrlandsstjórn vinnur mikið með Rússum þá er þetta líka mikil ögrun við Rússa,“ segir Magnús Þorkell og bætir við.

„Þetta var hvatvís aðgerð. Hann var að bregðast við óhugnanlegum sjónvarpsmyndum. Við fyrstu sýn virðist ekki vera nein herkænska né herbragð á bak við ákvörðunTrump. Svo er þetta líka mótsagnakennt hjá honum þar sem Trump réttlætir þessa aðgerð á þann veg að hún sé til þess að styðja við fórnarlömb stríðsins í Sýrlandi á meðan hann neitar að taka við flóttamönnum frá Sýrlandi. Að lokum þá hefur Bandaríkjaher verið virkur í Sýrlandi undanfarið ár þannig að íhlutun þeirra er ekki eðlismunur heldur stigsmunur,“ segir Magnús.

Vladimír Pútín forseti Rússlands.
Vladimír Pútín forseti Rússlands. AFP

Hvað með lögmæti slíkrar árásar? Ekki í gegnum þingið.

Repúblikanar hafa sagt að þetta sé löglegt þar sem al-Assad fór yfir strikið. En demókratar segja að árásin sé ólögleg þar sem hann fékk ekki grænt ljós frá þinginu. En eins og svo oft áður í bandarískum stjórnmálum þá er svona aðgerð líklegri til að styrkja stöðu forsetans. Hann verður vinsælli og getur sýnt að hann sé sterkur leiðtogi og að hann sé að gera „eitthvað“. Hann er líka með þessu að sýna að hann er öðruvísi en forveri sinn sem gerði „ekki neitt“, segir Magnús. 

Loftárásin að hefjast í nótt.
Loftárásin að hefjast í nótt. AFP

Spurður um áhrifin á íbúa Sýrlands segir Magnús Þorkell að árásin í nótt auki aðeins á spennuna í landinu og magni ofbeldið í landinu. Það þýðir áframhaldandi neyð og hörmungar í lífi almennra borgara.

Sjúkrastofa í Khan Sheikhun.
Sjúkrastofa í Khan Sheikhun. AFP

Eigum við kannski að undirbúa okkur undir heimstyrjöld?

„Erfitt að segja,“ segir Magnús Þorkell. „En allir slíkir þættir eru til staðar í Sýrlandi. Stórveldin eru þar með sína ólíku hagsmuni og auðvelt að rekast á hvorn annan. Þetta er staðgöngustríð (proxy war) þannig að stórveldin eru að berjast um eitthvað annað en sjálft Sýrland. Og spennustigið er sannarlega að þróast í þá átt. En hvort að þetta sé nóg til að koma á slíkri styrjöld er vonlaust að spá fyrir um nú,“ segir Magnús Þorkell Bernharðsson.

Börn sem búa í úthverfi Damaskus, Douma.
Börn sem búa í úthverfi Damaskus, Douma. AFP
AFP
Frá Zaatari flóttamannabúðunum þar sem 80 þúsund Sýrlendingar búa.
Frá Zaatari flóttamannabúðunum þar sem 80 þúsund Sýrlendingar búa. AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina