Sænsk lögregla búin að bera kennsl á lík þriggja

Fólk hefur ritað skilaboð og kveðjur til fórnarlambanna á krossviðarvegg …
Fólk hefur ritað skilaboð og kveðjur til fórnarlambanna á krossviðarvegg nærri árásarstaðnum. AFP

Búið er að bera kennsl á lík þriggja af þeim fjórum sem fórust er flutningabíl var ekið inn í mannfjölda við Åhléns City-versl­un­ar­miðstöðina í miðborg Stokkhólms á föstudag. Á fréttavef sænska dagblaðsins Aftonbladet er greint frá því að belgísk kona sé í hópi þeirra sem létust, en Expressen sagði frá því í gærkvöldi að 11 ára stúlka á leið heim úr skóla hefði einnig látist í árásinni.

Sjö manns hafa þá verið teknir til yfirheyrslu í tengslum við árásina að sögn lögreglu, auk hins meinta árásarmanns sem handtekinn var á föstudagskvöld. Hann er þó enn sem komið er sá eini sem er í varðahaldi og sagði sænska lögreglan í gær að hún teldi sig fullvissa um að réttur maður hefði verið handtekinn.

Mikið blómahaf er nú við Åhléns City-versl­un­ar­miðstöðina og kom fjöldi …
Mikið blómahaf er nú við Åhléns City-versl­un­ar­miðstöðina og kom fjöldi manns þar saman í gær og til að minnast fórnarlambanna. AFP

Útsalan slæm hugmynd

Búið er að opna fyrir umferð um svæðið þar sem árásin átti sér stað, en rannsókn á vettvangi lauk í gærkvöld. Åhléns-vöruhúsið, sem hefur verið lokað síðan árásin var gerð, verður opnað aftur á morgun. Verslunin hefur hins vegar hætt við fyrirhugaða útsölu á þeim vörum sem skemmdust vegna reyks frá eldinum sem kom upp þegar kviknaði í bílnum sem ekið var inn í anddyri hússins. Hafa stjórnendur Åhléns beðið afsökunar á þessu, en þeir hafa sætt harðri gagnrýni frá almenningi fyrir hugmyndina.

„Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að þetta vær slæm hugmynd,“ hefur Aftonbladet eftir Gustaf Öhrn, framkvæmdastjóra verslunarinnar. „Í ákafa okkar að opna aftur eins fljótt og við gætum og standa þannig með þeim gildum sem við teljum mikilvæg sást okkur yfir þetta.“

Fjöldi manns kom saman við árásarstaðinn í gærkvöld og kveikti á kertum til minningar um fórnarlömbin. Þá hefur verið boðað til sér­stakr­ar kær­leiks­stund­ar á Serg­els-torgi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert