Samstaðan hefur aukist í Stokkhólmi

Frá minningarathöfninni í Stokkhólmi í gær.
Frá minningarathöfninni í Stokkhólmi í gær. AFP

Erling Ormar Vignisson, sem er búsettur í Stokkhólmi, segir að samstaðan á meðal almennings hafi aukist eftir hryðjuverkaárásina sem var framin í borginni fyrir helgi.  

„Fólk lítur meira í kringum sig og brosir til náungans. Það kemur upp þessi þörf fyrir samstöðu. Ég held að það finni allir fyrir því núna. Ég finn ekki fyrir neinum ótta hjá fólki. Það er frekar að þetta þjappi því saman,“ segir Erling Ormar.

Hann starfar í bankanum Landshypotek sem er aðeins um 200 metra frá staðnum þar sem vörubíll keyrði inn í mannfjölda á Drottningargötu í Stokkhólmi.

AFP

Mínútuþögn var haldin í hádeginu í dag og telur Erling að flestir vinnustaðir hafi gert hlé á sínum störfum meðan á henni stóð. Hann, ásamt samstarfsfólki hans í bankanum, fylgdist með sjónvarpsútsendingu frá minningarathöfn sem fór fram við ráðhúsið.

AFP

Erfitt fyrir samstarfsmann

Erling greinir frá því að hryðjuverkið hafi snert einn samstarfsmann hans úr bankanum sérlega mikið því um hálfri mínútu eftir það sem gerðist var hann staddur þar sem voðaverkið var framið.

„Hann var frekar illa haldinn yfir helgina. Hann hélt að það hefði verið eitthvað umferðaróhapp og að fólk væri að slást á götunum,“ segir hann.

Í framhaldinu sá samstarfsmaðurinn öryggisverði sem höfðu lagst yfir þá sem slösuðust til að verja þá frá ágangi annars fólks, auk þess sem hann talaði um að einhver hefði veifað þar byssu. 

AFP

Lengi að komast heim 

Erling var í um tvær klukkustundir að komast heim til sín á föstudaginn en venjulega tekur ferðalagið um 40 mínútur. Hann segir að biðin eftir því að komast heim hafi verið óþægileg en annars sé hann í góðu jafnvægi.

Á leið heim úr vinnunni í dag gekk hann fram hjá staðnum þar sem árásin var gerð, eins og hann gerir alla daga. Þar sá hann fjölda fólks að votta fórnarlömbunum virðingu sína og lögðu margir blóm á lögreglubíla sem þar eru.

Blómum þakinn lögreglubíll.
Blómum þakinn lögreglubíll. AFP

Meira var um sig 

Hann segir að mörg fyrirtæki hafi bent starfsmönnum sínum á aðstoð sem það getur fengið við að vinna úr áfallinu en sjálfur hefur hann ekki þegið slíka aðstoð.

Spurður segist hann vera meira var um sig en áður. Einnig hefur hann tekið eftir því að verðir eru núna fyrir utan dyrnar á verslunarmiðstöð sem er nærri hinni verslunarmiðstöðinni þar sem árásin var gerð. „Ég hugsa að fólk sé aðeins á tánum núna. Svo rjátlast þetta af því með tíð og tíma.“

Erling bjó í Orlando í Bandaríkjunum þegar árásirnar á tvíburaturnana voru gerðar árið 2001. Þar var viðbragðsáætlun sett í gang en bróðir George W. Bush, þáverandi Bandaríkjaforseta, var þá ríkisstjóri á Flórída. „Ég hef aðeins fengið snert af svona atburðum áður en það er ekkert hægt að venjast svona löguðu sérstaklega,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert