„Þá mun fólk deyja úr hungri“

Vannært barn vigtað á heilsugæslustöð UNICEF í Jemen.
Vannært barn vigtað á heilsugæslustöð UNICEF í Jemen. AFP

Sameinuðu þjóðirnar vara við vaxandi hættu á stráfelli hungraðra íbúa Sómalíu, Suður-Súdans, Jemen og Nígeríu. Langvarandi þurrkar og stríðsátök hafa orsakað matvælaskort og hungursneyð á sumum svæðum. Aldrei fyrr hefur hungursneyð vofað yfir jafn mörgum löndum í einu frá því að Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar fyrir sjötíu árum.

Sameinuðu þjóðirnar benda á að búið sé að vara við ástandinu lengi. „Hjákvæmileg mannúðarógn er hratt að verða að veruleika,“ segir talsmaður Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Adrian Edwards. Hann segir að enn vanti mikla fjármuni til Sameinuðu þjóðanna svo að þær geti aðstoðað alla þá sem ástandið er þegar tekið að bitna á.

Edwards segir að enn sé aðeins búið að fjármagna um 3-11% af þeirri neyðaraðstoð sem þarf til í löndunum fjórum. 

Sameinuðu þjóðirnar þarfnast 4,4 milljarða Bandaríkjadala, um 495 milljarða króna, til aðstoðarinnar en hefur nú aðeins fengið brot af þeirri upphæð. 

Vannært barn fær næringu á sjúkrahúsi í suðvesturhluta Sómalíu. Hungursneyð …
Vannært barn fær næringu á sjúkrahúsi í suðvesturhluta Sómalíu. Hungursneyð vofir yfir þúsundum þar í landi. AFP

Stofnunin segir að ástandið sem nú sé í uppsiglingu sé mun alvarlegra en þurrkarnir miklu og hungursneyðin í Sómalíu árið 2011. Þá létust 260 þúsund manns í því landi einu saman. 

„Við verðum að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig,“ segir Edwards. 

Um tuttugu milljónir manna búa á helstu hættusvæðunum í Nígeríu, Suður-Súdan, Sómalíu og Jemen. Hungursneyð ríkir þegar á sumum svæðum en önnur eru í gríðarlegri hættu á að slíkt ástand brjótist út.

 Talsmenn Flóttamannahjálpar SÞ segja að fjármögnunin þoli enga bið svo að hægt verði að bjarga mannslífum. 

 Um 100 þúsund manns búa við hungursneyð í Suður-Súdan. Um milljón til viðbótar þurfa að þola mikinn og viðvarandi fæðuskort. Í landinu hefur ríkt borgarastyrjöld frá því árið 2013. Hungursneyðin er því af mannavöldum. Beitilönd og akrar hafa verið eyðilögð og milljónir hraktar á flótta. 

Í Jemen hefur einnig ríkt stríð í þrjú ár. Þar vofir yfir ein mesta mannúðarógn heimsins í dag. Sautján milljónir manna, um 60% þjóðarinnar eru við hungurmörk og hundruð barna hafa þegar dáið úr hungri og sjúkdómum sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir. 

Í norðurhluta Nígeríu ríkir mikið fæðuóöryggi og sjö milljónir manna hafa ekki nægan mat. Verst er ástandið í norðausturhluta landsins þar sem hryðjuverkasamtökinBokoHaram hafa hreiðrað um sig.

Fólk í flóttamannabúðum í Baidoa í Sómalíu.
Fólk í flóttamannabúðum í Baidoa í Sómalíu. AFP

Ástandið er líka „mjög, mjög skelfilegt“ í Sómalíu að sögn Davids Hermann, sem stjórnar aðgerðum Rauða krossins á svæðinu.

„Það þarf að bregðast við núna, því ef það gerist ekki núna þá mun fólk deyja úr hungri.“

Hungrið hefur ýtt fólki á flótta frá heimilum sínum í öllum fjórum löndunum. Matvælaskortur er aðalástæða þess að fólkið flýr.

Flóttafólki frá Suður-Súdan hefur fjölgað hratt í ár. Von var áum 60 þúsund til nágrannaríkisins Súdans þetta árið en talið er að fjöldinn muni ná um 180 þúsund innan skamms. Enn fleiri flýja til Úganda. Flóttamannahjálpin fær hins vegar ekki nægilegt fjármagn til að sinna flóttafólkinu og gefa því öllu að borða. Verst er staða barnanna sem eru vannærð og veikjast hratt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert