Fengu lottóvinning í þriðja sinn

Douglas og Barbara Fink detta ítrekað í lukkupottinn.
Douglas og Barbara Fink detta ítrekað í lukkupottinn.

Kanadískt par hefur unnið stóra vinninginn í lottóinu í þriðja sinn. Nú hljóðaði vinningurinn upp á 8,2 milljónir Kanadadollara, rúmlega 690 milljónir króna. 

Barbara og Douglas Fink hafa tvisvar áður fengið stóran vinning, árin 1989 og 2010.

Það var svo í febrúarútdrætti Western Canada-lottósins sem stærsti vinningurinn til þessa kom í þeirra hlut, að því er segir í tilkynningu frá lottóinu.

Parið, sem er frá Edmonton í Alberta, ætlar að leyfa börnum sínum að njóta góðs af vinningnum.

„Fjölskyldan er í fyrsta sæti,“ sagði Barbara Fink. „Við viljum sjá til þess að dætur okkar og barnabörn hafi það gott.“

En parið ætlar þó að halda einhverju eftir fyrir sig og ætla að byrja á því að skipuleggja ferðalög og kaupa sér nýtt hús.

Árið 1989 fékk Douglas Fink vinning upp á um 10 milljónir króna. Honum deildi hann með vinum sínum. Nokkrum árum síðar, eða árið 2010, fékk parið svo um 8,5 milljóna króna vinning.

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert