Varar við frekari efnavopnaárásum

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hélt blaðamannafund í dag og sagði sína …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hélt blaðamannafund í dag og sagði sína skoðun á málefnum Sýrlands. AFP

 Vladimír Pútín Rússlandsforseti varaði í dag við frekari „ögrunum“ í Sýrlandi til að koma höggi á Bashar al-Assad forseta. Sagðist hann vita til þess að sambærilegar „ögranir“ séu í undirbúningi víðar í Sýrlandi, m.a. í höfuðborginni Damaskus.

Þetta sagði hann á fundi með embættismönnum í Moskvu í dag. 

„Við höfum upplýsingar frá mörgum heimildarmönnum um að slík ögrun - ég get ekki kallað þetta annað - sé í undirbúningi á öðrum svæðum í Sýrlandi, meðal annars í úthverfum Damaskus, þar sem þeir eru að skipuleggja að varpa einhvers konar efnum og saka sýrlensk yfirvöld um að beita þeim,“ sagði Pútín á blaðamannafundi í dag. 

Pútín sagði Rússa ætla að beita sér fyrir því að efnavopnaárásin í Idlib-héraði í síðustu viku verði rannsökuð til hlítar. 

Líkindi með loftárásum í Sýrlandi og innrásinni í Írak

Pútín benti á líkindi með viðbrögðum við efnavopnaárásinni í Khan Sheikhun, þar sem tugir féllu, og innrásarinnar í Írak árið 2003 sem Bandaríkjamenn fóru fyrir. Í þeirri innrás voru grunsemdir um að Írakar byggju yfir gereyðingarvopnum notaðar sem ástæða til innrásar. 

„Það endaði með niðurbroti landsins og því að hryðjuverkaógn jókst og Ríki íslams varð til, hvorki meira né minna,“ sagði Pútín.

Varnarmálaráðherra Rússlands segist hafa haft upplýsingar um að uppreisnarmenn væru að flytja eitrað gas til Khan Sheikhun og fleiri svæða. 

„Markmiðið með þessu er að búa til enn eina ástæðuna til að saka sýrlensk stjórnvöld um að nota efnavopn og kalla eftir nýjum loftárásum Bandaríkjamanna,“ sagði í yfirlýsingu varnarmálaráðuneytisins.

 Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Rex Tillerson er kominn til Rússlands til að ræða við þarlend stjórnvöld um stuðning þeirra við stjórn Assads Sýrlandsforseta. Tillerson er æðsti embættismaður ríkisstjórnar Donalds Trump sem heimsótt hefur Rússland.

Pútín segir að verið sé að stilla Rússum og Sýrlendingum upp hlið við hlið sem sameiginlegum óvini til að reyna að sameina Bandaríkin og önnur vestræn ríki sem höfðu efasemdir um Trump á forsetastóli.

„Við erum tilbúin að umbera þetta, en við vonum að þetta leiði samt sem áður til einhvers konar jákvæðrar samvinnu,“ sagði Pútín.

Stjórnvöld í Rússlandi halda því fram að orrustuþotur Sýrlandshers hafi varpað sprengjum á vopnabúr uppreisnarmanna og að þar hafi reynst vera efnavopn. 

Í framhaldi af fundum með Tillerson munu stjórnvöld í Rússlandi funda með Sýrlendingum og Írönum um ástandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert