11 ára Ebba var fjórða fórnarlamb Akilovs

Ebba Åkerlund, Chris Bevington, Lena Wahlberg og Maïlys Dereym­a­eker létust …
Ebba Åkerlund, Chris Bevington, Lena Wahlberg og Maïlys Dereym­a­eker létust þegar Akilov ók flutningabíl yfir þau.

Hin 11 ára gamla Ebba Åkerlund var eitt fórn­ar­lamb hryðju­verka­árás­ar­inn­ar í miðborg Stokkhólms á föstu­dag.  Er hún sú síðasta þeirra til að vera nafngreind, en áður var búið að greina frá því að 69 ára gömul sænsk kona Lena Wahlberg, 41 árs Breti, Chris Bevingt­on, og 31 árs belg­ísk kona, Maïlys Dereym­a­eker, hefðu látið lífið þegar Úsbek­inn Rak­hmat Aki­lov ók inni mannþröng í miðborg Stokk­hólms.

Ebba var á leið heim úr skóla þegar Akilov ók á hana á flutningabíl sem hann hafði tekið ófrjálsri hendi nokkru fyrr. Ebba hafði sagt skilið við skólafélaga sína sem héldu áfram heim með strætó, því hún hafði mælt sér mót við móður sína og var á leið í neðanjarðarlestina þegar hún lést.

Hennar var fljótt saknað og þegar ekki náðist í hana í síma var auglýst eftir henni, m.a. á samfélagsmiðlum að sögn Aftonbladet. Borin voru kennsl á hana á laugardag og óskaði fjölskyldan í kjölfarið eftir næði til að syrgja.

Fjölskyldan hefur nú þakkað sænskum fjölmiðlum og almenningi fyrir að virða þessa bón. „Við þökkum sænsku þjóðinni af okkar dýpstu hjartarótum fyrir þá hlýju og kærleik sem hún hefur sýnt okkur á þessum sáru og erfiðu tímum,“ sagði í yfirlýsingu frá fjölskyldunni.

Voru í heimsókn í Stokkhólmi

Wahlberg, var formaður mannréttindasamtakanna Am­nesty In­ternati­onal í heimabyggð sinni Lj­ungskile. Hún var í heimsókn í Stokkhólmi þegar árásin var gerð. Það sama á við um Dereym­a­eker, sem var í helgar­heim­sókn í borg­inni til að heim­sækja vini. Hún náði aldrei að hitta þá, því að Aki­lov ók yfir hana þar sem hún beið þess á gatna­mót­um að hitta þau. Dereym­a­eker starfaði sem sál­fræðing­ur og aðstoðaði m.a. með hæl­is­leit­end­ur í heima­borg sinni Halle. 

Bevingt­on var starfsmaður Spotify og hafði unnið í Stokk­hólmi í rúm 5 ár og er lýst af sam­starfs­fólki sínu sem einkar gjaf­mild­um manni.

Átta eru enn á sjúkra­húsi eft­ir árás­ina og er ástand tveggja þeirra enn al­var­legt. Einn þeirra sem flutt­ur var á gjör­gæslu eft­ir árás­ina hef­ur nú verið út­skrifaður.

Aki­lov var færður fyr­ir dóm­ara í Stokk­hólmi í gær og játaði hann sekt sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert