Farþeginn jafnar sig á sjúkrahúsi

Mótmæli hafa verði haldin vegna brottnáms farþegans úr vél United …
Mótmæli hafa verði haldin vegna brottnáms farþegans úr vél United Airlines. Margir kalla eftir því að flugfélagið verði sniðgengið. AFP

Forstjóri bandaríska flugfélagsins United Airlines hefur loks beðist afsökunar á „virkilega hræðilegu“ atviki sem átti sér stað er farþegi var dreginn frá borði vélar félagsins með valdi á sunnudag.

Forstjórinn, Oscar Munoz, hafði áður sagt í tölvupósti til starfsmanna sinna þeir hefðu farið rétt að og fylgt verklagsreglum. Þá sagði hann að farþeginn, sem heitir David Dao og er 69 ára læknir, hafi látið „dólgslega“ um borð.

Munoz sagði í afsökunarbeiðni sinni í gærkvöldi að hann væri miður sín yfir málinu en aðrir farþegar tóku atvikið upp á myndbönd sem hefur verið dreift víða.

Fjölskylda Davids Dao gaf út yfirlýsingu í gær og sagðist þakka fyrir gríðarlegan stuðning. Dao slasaðist er hann var dreginn úr sæti sínu og eftir göngum vélarinnar. Hann fær nú aðhlynningu á sjúkrahúsi í Chicago.

Vél United Airlines átti að fljúga frá Chicago til Louisville í Kentucky á sunnudag. Þegar allir farþegar voru komnir um borð var tilkynnt að vélin væri yfirbókuð og óskað var eftir sjálfboðaliðum til að fresta flugi sínu og fá fyrir það bætur. Það vildi svo til að enginn gaf sig fram. Völdu þá starfsmenn fjóra farþega af handahófi, að því er þeir segja, og báðu þá að fara út. David Dao sagðist ekki vilja fara. Hann væri læknir og ætti að mæta til vinnu á sjúkrahúsið daginn eftir.

Það undarlega gerðist þá að starfsmenn flugfélagsins kölluðu til öryggisverði af flugvellinum og létu draga hann með valdi frá borði.

Málið hefur vakið gríðarlega athygli um allan heim.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert