Vildi berjast með Ríki íslams

AFP

Karlmaður sem framdi hryðjuverk í miðborg Stokkhólms á föstudaginn sem kostaði fjóra lífið reyndi að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams í Sýrlandi. Maðurinn, Rakhmat Akilov, var hins vegar tekinn höndum þegar hann reyndi að fara yfir landamæri Tyrklands og Sýrlands og í kjölfarið sendur aftur til Svíþjóðar vegna stöðu hans þar sem flóttamanns.

Þetta kemur fram í frétt AFP og er vísað til upplýsinga frá ónafngreindum lögreglumanni í Úsbekistan þaðan sem Akilov er uppruninn. Fram kemur í fréttinni að Akilov, sem er 39 ára gamall, hafi reynt að komast yfir landamærin til Sýrlands árið 2015. Einnig er haft eftir heimildarmanninum að Akilov hafi verið eftirlýstur í Úsbekistan í lok febrúar vegna ákæru fyrir glæp sem tengdist trúaröfgum. 

Akilov viðurkenndi í gær að hafa staðið fyrir hryðjuverkinu sem varð fjórum að bana sem fyrr segir og særði 15 aðra. Fram kemur í fréttinni að Akilov hafi sagst hafa fengið skipun frá Ríki íslams um að gera árásina. Hann sótti um varanlegt dvalarleyfi í Svíþjóð á síðasta ári en umsókninni var hafnað. Lét hann sig þá hverfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert