„Ég finn ekki fyrir hatri“

Natascha Kampusch árið 2016 (t.v.) og 2006, í fyrsta viðtalinu ...
Natascha Kampusch árið 2016 (t.v.) og 2006, í fyrsta viðtalinu sem hún gaf eftir að fá frelsið.

Prísundin í dýflissunni beygði Natöschu Kampusch en braut hana ekki. Þegar hún var tíu ára var henni rænt og átta árum síðar tókst henni loks að sleppa frá mannræningja sínum. Hún þurfti að læra samskiptareglur samfélagsins þegar frelsið var fengið og var gagnrýnd fyrir styrk sinn og yfirvegun fyrst á eftir sem margir misskildu sem fálæti og kaldlyndi. Kampusch segir fjölmiðla hafa dregið upp bjagaða mynd af sér og að almenningur, læknar og lögfræðingar hafi ráðskast með sig.

En nú, rúmlega tíu árum eftir að hún slapp, hefur hún nýtt krafta sína í að styrkja byggingu og starfa á barnaspítala í Sri Lanka og í að skrifa og kynna bækur um líf sitt í húsinu í Austurríki þar sem henni var haldið fanginni. 

Natascha Kampusch er ekki lengur á forsíðum dagblaða heimsins þó að hún veiti annað slagið viðtöl. En flestir vita enn hver hún er og muna sögu hennar sem er svo ótrúleg að margir efuðust um að hún væri sönn.

„Ég er Natascha Kampusch“

1. ágúst 2006 var barið á glugga aldraðrar konu í austurríska bænum Deutsch-Wagram. Fyrir utan stóð stúlka sem sagði: „Ég er Natascha Kampusch.“ Konan hringdi á lögregluna sem kom á vettvang skömmu síðar. Í ljós kom að stúlkan var í raun sú sem hún sagðist vera og í kjölfarið fylgdi eitt sérkennilegasta sakamál síðari ára.

Kampusch er fædd 17. febrúar árið 1988. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum í Vínarborg. Foreldrar hennar slitu samvistir er hún var enn á barnsaldri og skildu svo eftir að henni var rænt.

Að morgni 2. mars 1998 yfirgaf hin tíu ára gamla Kampusch heimili sitt í úthverfi Vínar og hélt í skólann. Þangað kom hún hins vegar aldrei. Sjónarvottur sagðist hafa séð hana dregna inn í hvítan sendibíl og í kjölfarið upphófst umfangsmikil leit lögreglu. Við rannsókn málsins voru tæplega 800 sendibílar rannsakaðir, þeirra á meðal bíll mannræningjans sem bjó skammt frá Vín. Maðurinn, Wolfgang Priklopil, var yfirheyrður af lögreglu á sínum tíma. Hann sagðist hafa verið einn heima er mannránið átti sér stað en lögreglan aðhafðist hins vegar ekkert frekar.

Priklopil flutti stúlkuna í hús sitt og kom henni þar fyrir í kjallara sem líkt hefur verið við dýflissu. Þetta gluggalausa og hljóðeinangraða rými sem hún hafðist að mestu við í næstu árin var aðeins um 5 fermetrar að stærð. 

Natascha var á leið í skólann er henni var rænt. ...
Natascha var á leið í skólann er henni var rænt. Þá var hún tíu ára. Skjáskot

Fyrsta hálfa árið hleypti hann Kampusch ekki út úr klefanum. Árum saman var henni haldið þar að nóttu til. Smám saman fór Priklopil þó að leyfa henni að dvelja í íbúðarhúsinu er hann var heima við.

Vitni hafa staðfest að þau hafi séð Kampusch á meðan hún var í haldi hans. Viðskiptafélagi hans segist m.a. hafa séð hana er hann kom óvænt í heimsókn.

Er Kampusch varð átján ára fór Priklopil að leyfa henni að fara með sér frá heimilinu sem umbun fyrir góða hegðun. Hann varaði hana ætíð við að ef hún reyndi að flýja myndi hann drepa hana. Eitt sinn fór hún með honum í skíðaferðalag. Ferðalagið var stutt og sagðist Kampusch síðar ekki haft neina möguleika á að strjúka við það tækifæri. Eitt sinn reyndi hún að stökkva út úr bíl. Nokkrum sinnum freistaði hún þess að ná athygli vegfarenda svo að lítið bæri á. Priklopil sagði henni að gildrur væru við glugga og dyr hússins svo hún kæmist hvergi. Hann sagðist líka eiga byssu sem hann hótaði að beita.

Andlegt og líkamlegt ofbeldi

Þau tíu ár sem hún var í haldi mannræningjans beitti hann hana miklu ofbeldi. Í ævisögu hennar kemur fram að hann hafi barið hana ítrekað til óbóta og refsað henni með ýmsum hætti, m.a. langvarandi svelti. Hún var 45 kíló er hann rændi henni og aðeins 48 kíló er hún flúði, tíu árum síðar.

Þá beitti hann hana stöðugu andlegu ofbeldi, niðurlægði hana og hreytti í hana ónotum. Allan tímann notaði hann hana sem þræl á heimilinu.

Ekki er talið að Priklopil hafi beitt Kampusch kynferðislegu ofbeldi. Nokkru eftir að hún slapp frá honum var sagt frá því í fjölmiðlum að myndbandsupptökur af henni hefðu fundist í húsinu. Þær voru flestar teknar upp á afmælisdögum og jólum. Þar mátti sjá litla stúlku fá pakka, s.s. enska orðabók, og örsmáan bita af afmælisköku. Einnig sást hún skreyta jólatréð.

Kampusch sagði frá því síðar að hún hefði sloppið við ýmisleg vandamál unglingsáranna vegna prísundarinnar. Hún hefði hvorki byrjað að reykja né drekka. Hún hefði haft aðgang að bókum og getað menntað sjálfa sig að ákveðnu leyti. Hins vegar hafi þyrmt yfir hana þegar hún hugsaði til þess að hún þyrfti að dvelja hjá fangara sínum til eilífðar.

Greip fyrsta tækifærið

Tækifærið til að flýja kom loks um hádegisbil 23. ágúst 2006. Hún var fyrir utan húsið að þrífa bíl Priklopil sem stóð hjá og fylgdist með henni. En þegar hann svaraði í símann og varð annars hugar notaði hún tækifærið og hljóp í burtu. Hún bað vegfarendur að hringja í lögregluna. Það var þó ekki fyrr en hún bankaði á glugga hinnar öldruðu nágrannakonu að flóttanum lauk.

Priklopil vissi í hvað stefndi. Hann framdi sjálfsvíg sama dag með því að stökkva í veg fyrir lest.

Fréttin um að Kampusch væri á lífi og hefði verið í haldi mannræningja árum saman breiddist hratt út. Í yfirlýsingu sem hún gaf út skömmu síðar sagðist hún ekki ætla að svara viðkvæmum og persónulegum spurningum um málið. Í fyrstu viðtölunum kom hún fyrir sem yfirveguð og greind og hafði góðan orðaforða enda hafði hún hlustað á klassískar austurrískar útvarpsstöðvar sér til menntunar. 

Í heimildarmynd sem gerð var um málið fyrir nokkrum árum sagðist hún hafa samúð með fangara sínum og að sú tilfinning hefði aukist frekar en hitt. Fjölmiðlar sögðust einnig hafa heimildir fyrir því að hún hefði grátið er lögreglan sagði henni frá andláti hans.

Geðlæknar höfðu skýringar á reiðum höndum: Hún þjáðist af því sem kallað er Stokkhólmsheilkennið og felur í sér að gíslar hænast að ræningjum sínum, enda algjörlega á þeirra valdi og undir þeirra náð og miskunn komnir. Sjálf hefur Kampusch alfarið hafnað þessari greiningu og sagt að enginn geti skilið það flókna samband sem hún átti við Priklopil.

Berst fyrir réttindum dýra

Kampusch seldi sögu sína til dagblaða og fékk þannig aðstoð til að mennta sig og styrk til að koma þaki yfir höfuðið. Um tíma stjórnaði hún spjallþætti í sjónvarpi en því ævintýri lauk fljótt. Hún hefur um árabil verið ötull dýraverndunarsinni og meðal annars verið talsmaður dýraverndunarsamtakanna PETA í Austurríki. 

 Kampusch hefur gefið út tvær bækur um lífsreynslu sína. Sú fyrri hét 3096 dagar og kom út árið 2010. Kvikmynd var gerð eftir henni  árið 2013. Í ágúst í fyrra, tíu árum eftir að hún hlaut frelsið, gaf hún út aðra bók sem heitir einmitt Tíu ár af frelsi.

Natascha Kampusch lætur ekki mikið fyrir sér fara í dag. Annað slagið kemur hún fram og ræðir og kynnir síðari bók sína.

 Í viðtali við þýskt tímarit fyrr í mánuðinum sagðist hún ekki hafa bugast af einangrunarvistinni og að hún hafi nú áttað sig á því að hún var rænd æsku sinni. Hún sagði fólk oft ekki þora að nálgast sig. Í fyrstu hafi henni fundist það eins og blaut tuska í andlitið. Nú sýni hún því skilning. Ekki allir hafi taugar í að heyra um, og vilja helst ekki vita af, því sem fyrir hana kom.

Hún segist átta sig á því að fólki finnist hún stundum fjarlæg, t.d. í viðtölum. Hún skýrir það með því að hún vilji ekki opna sig alfarið í fjölmiðlum. Hún hafi brennt sig á slíku. Vinir hennar lýsa henni sem glaðlyndri og hamingjusamri í dag. Kampusch segir þá lýsingu ekki alltaf eiga við. 

Ýtt út í heim fullorðinna

Hún segir að oft hafi verið erfitt að heyra af samsæriskenningum og upplognum fréttum um sig. „Þegar mér var rænt var ég barn. Þegar ég hafði öðlast frelsi var mér ýtt út í heim fullorðinna.“ Fólk hafi viljað ráðskast með sig. 

Hún hafi þurft að læra að fóta sig í samfélagi manna á nýjan leik. Nú hafi hún öðlast innri styrk. „Ég finn ekki fyrir hatri,“ segir hún um fangara sinn. Það þjóni engum tilgangi að hata dáinn mann. Sér þyki hins vegar leitt að hann lagt svo miklar þjáningar á hana og fjölskyldu hennar.

Natascha Kampusch fyrir nokkrum árum. Hún býr enn í Vínarborg ...
Natascha Kampusch fyrir nokkrum árum. Hún býr enn í Vínarborg segist njóta þar lífsins.

Kampusch á í góðu sambandi við báða foreldra sína í dag. Faðir hennar hefur komið fram í fjölmiðlum og sagst trúa því að mannræningjarnir hafi verið tveir, þó að lögreglan hafi komist að annarri niðurstöðu. Kampusch hefur fyrirgefið föður sínum þetta og segir hann hlýjan og góðhjartaðan mann. 

Hún er einhleyp en ef rétta manneskjan verður á vegi hennar segist hún tilbúin í samband. Hingað til hafi ástarlífið ekki gengið sem skyldi, hún sé í hugum margra stúlkan sem var rænt. 

Þrátt fyrir að hafa ekki fengið eyri í bætur frá austurríska ríkinu vegna brottnámsins segist Kampusch hafa það ágætt fjárhagslega. Hún hafi nóg fyrir sig og hafi einnig getað gefið peninga til að byggja barnaspítala á Sri Lanka. Þá segist hún elska að búa í Vínarborg og njóta lífsins þar.

„Ég óska þess oft að geta lifað eðlilegu lífi, við eðlilegar aðstæður,“ segir hún og bætir við að líklega verði það aldrei raunin. Hins vegar viti hún að í lífi allra geti gengið á ýmsu. Hún hafi misst af mörgu sem barn og í dag vilji hún njóta þess að gera hluti sem hún gat ekki áður. „Ég vil nýta hæfileika mína en hindranir verða oft á vegi mínum.“ 

mbl.is

Frá Sýrlandi til Evrópu - Greinaflokkur

Infrarauður Saunaklefi 224.000
Verð : 239.000 (er á leiðinni til íslands ) færð á 224.000 ef þú greiðir inn á h...
Viðeyjarbiblía 1841
Til sölu Viðeyjarbiblía frá 1841, innbundin í fallegt skinnband, ástand mjög got...
Innfluttningur á enn betra verði fyrir alla
Hjálpum fólki að útvega allt frá Bretlandi á mun lægra verði sem viðkemur vinnuv...
 
Aðalfundur isnic 2018
Fundir - mannfagnaðir
Aðalfundur ISNIC 2018 Aðalfundur Inter...
Lausafjáruppboð
Nauðungarsala
Lausafjáruppboð Einnig birt á www.naud...
Endurskoðun aðalskipulags
Tilkynningar
Endurskoðun aðalskipulags Akraness Alm...
Hafnarvörður
Skrifstofustörf
????????????? ???????????? ??? ??????? ...