Engum sagt upp hjá United Airlines

Oscar Munoz, til hægri.
Oscar Munoz, til hægri. AFP

Engum starfsmanni United Airlines verður sagt upp eftir að karlmaður var dreginn með valdi frá borði flugvélar flugfélagsins á dögunum. Oscar Munoz, yfirmaður United Continental, segir að um „kerfisbilun“ hafi verið að ræða.

„Kerfisbilun átti sér stað á mörgum stöðum, þannig að það kom aldrei til greina að reka starfsmann eða einhvern annan sem tengist málinu,“ sagði Munoz.

Flugfélagið hefur verið harðlega gagnrýnt vegna meðhöndlunar sinnar á farþeganum eftir að myndband birtist á netinu af atvikinu.

Munoz baðst aftur afsökunar á því sem gerðist. „Við höfum alltaf ætlað okkur að endurgjalda viðskiptavinum okkar með hágæða þjónustu og sýna fram á virðingu okkar gagnvart þeim,“ sagði hann.

„Við munum gera þær stefnubreytingar sem þörf er á til að tryggja að þetta gerist ekki aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert