Le Pen ætlar að stöðva komu innflytjenda

Liberation sagði ræðu Marine Le Pen, forsetaframbjóðanda Þjóðfylkingarinnar, vera mestu …
Liberation sagði ræðu Marine Le Pen, forsetaframbjóðanda Þjóðfylkingarinnar, vera mestu harðlínuræðu sem hún hafi haldið til þessa. AFP

Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar, sagði á fundi með stuðningsmönnum sínum í gær að nái hún kjöri þá muni hún banna komu þeirra innflytjenda sem nú er heimilt, samkvæmt lögum,  að koma til Frakklands.  Sagði Le Pen fundargestum að hún vildi stöðva „brjálaðar, óstjórnlegar aðstæður“.

Skoðanakannanir benda til þess að mjótt verði á munum milli þeirra Le Pen og óháða frambjóðandans Emmanuel Macron, þegar fyrri umferð forsetakosninganna fer fram næsta sunnudag. Fram­bjóðandi hægrimanna, Franço­is Fillon, fylg­ir hins veg­ar nú fast á hæla þeirra og því geta úrslitin að verða tvísýn.

„Ég mun stöðva tímabundið komu allra löglegra innflytjenda til landsins til að stöðva þessa brjálsemi, þessar óstjórnlegu aðstæður sem eru að draga okkur öll niður,“ segir BBC Le Pen hafa sagt við stuðningsmenn sína.

Að því loknu muni frönsk stjórnvöld kynna til sögunnar mun „róttækari, skynsamlegri, mannlegri og viðráðanlegri“ reglur um innflytjendur.

Franska dagblaðið Liberation, sem er á vinstri kantinum, sagði ræðu Le Pen vera „mestu harðlínu ræðuna sem hún hefði haldi í kosningabaráttu sinni“ og að ræðunni væri ætlað að höfða til stuðningsmanna hennar í grasrótinni.

11 frambjóðendur taka þátt í fyrri umferð forsetakosninganna og benda kannanir til þess að þriðjungur Frakka eigi enn eftir að gera upp hug sinn, sem þykir gera úrslit forsetakosninganna nú þau tvísýnustu um áratugaskeið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert