Kosningar 2020 hefðu veikt stjórnina

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Tillaga Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um að boðað verði til þingkosninga í sumar verður lögð fram á breska þinginu síðar í dag en búist er við að hún verði samþykkt af 2/3 þingmanna eins og krafa er gerð um í lögum. May tilkynnti um fyrirætlan sína í gær og hefur Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, þegar lýst því yfir að flokkur hans muni styðja tillöguna. Sama á við um flesta aðra flokka á þinginu.

Forsætisráðherrann hefur sagt að hún vilji fá fram tryggan stuðning breskra kjósenda við stjórnvöld í fyrirhuguðum viðræðum við Evrópusambandið um úrsögn Bretlands úr sambandinu. Breska þjóðin hefði smám saman verið að sameinast um það markmið að ganga úr Evrópusambandinu en það sama ætti ekki við um þingmenn á breska þinginu. Deilur þeirra á milli sköpuðu hættu á að viðræðurnar gætu tafist.

Bretar kusu síðast í þingkosningum árið 2015 og næstu kosningar voru áætlaðar árið 2020. Hins vegar er heimilt samkvæmt breskum lögum að boða til kosninga áður en kjörtímabilinu lýkur ef tillaga um það nýtur stuðnings 2/3 þingmanna. Búist er við að Skoski þjóðarflokkurinn sitji hjá í atkvæðagreiðslunni um tillöguna en bæði Verkamannaflokkurinn og Frjálslyndir demókratar hafa fagnað henni.

Gagnrýnd fyrir að skipta um skoðun

Stjórnarandstæðingar hafa lagt áherslu á að May hafi áður þvertekið fyrir að boða til kosninga fyrr en gert hefði verið ráð fyrir. Heimildarmenn breska ríkisútvarpsins BBC innan ríkisstjórnarinnar segja hins vegar að ákvörðunin um kosningar sé tilkomin eftir að lagt hafi verið nýtt mat á aðstæður. Óheppilegt sé þannig að þingkosningar séu haldnar árið eftir að gert sé ráð fyrir að viðræðunum við Evrópusambandið ljúki.

Þegar kæmi fram á árið 2019 yrði undirbúningur hafinn fyrir kosningar og hætta á að það setti þrýsting á ráðherra að ljúka viðræðunum. Ríkisstjórnin yrði þar með í mikilli tímaþröng. May hefur ennfremur sagt við breska fjölmiðla að hún hafi fengið ráðrúm um páskana í fríi í Wales til þess að skoða málið ofan í kjölinn. Hún vonaðist til þess að kosningarnar myndu styrkja ríkisstjórnina í viðræðunum framundan.

Hefur forsætisráðherrann ennfremur bent á að það gæti veikt samningsstöðu Bretlands ef þingkosningar væru handan við hornið við lok viðræðnanna við Evrópusambandið. Fulltrúar sambandsins gætu litið á það sem tækifæri til þess að þrýsta á samningamenn Bretlands vitandi að þeir væru komnir í tímaþröng. Með kosningum og endurnýjuðu umboði þyrfti ekki að boða til kosninga fyrr en 2022 og þar með yrði svigrúmið meira.

Kom sumum ráðherrum á óvart

Fram kemur í frétt BBC að innanríkisráðherrann Amber Rudd og utanríkisráðherrann Boris Johnson hafi fengið að vita um ákvörðunina skömmu fyrir ríkisstjórnarfund í gærmorgun en eftir hann tilkynnti May um hana. Talið sé að einu ráðherrarnir sem forsætisráðherrann hafi ráðgast við hafi verið David Davis, sem heldur utan um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, og fjármálaráðherrann Philip Hammond.

Hins vegar hafi ákvörðunin komið sumum ráðherrum í opna skjöldu þegar þeim var greint frá henni á ríkisstjórnarfundinum. Þeim hafi sýnilega verið mjög brugðið en ákvörðunin kom flestum á óvart í gær og vissu breskir fjölmiðlar ekki um hana fyrirfram. May hringdi í gær í ýmsa þjóðarleiðtoga og greindi þeim frá ákvörðun sinni. Þar á meðal Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

May tók við sem forsætisráðherra síðasta sumar í kjölfar þjóðaratkvæðisins í Bretland þar sem meirihluti kjósenda samþykkti að ganga úr Evrópusambandinu. Forveri hennar David Cameron fór fyrir þeim sem vildu vera áfram innan sambandsins og sagði hann af sér í kjölfar ósigursins. Skoðanakannanir hafa sýnt Íhaldsflokk May í mjög sterkri stöðu og er búist við að flokkurinn vinni stórsigur í kosningunum í sumar.

mbl.is
Heitir pottar
Lok á heita potta og hitaveitu- skeljar Stærðir í cm: 200x200, 210x210, 220x220,...
KRISTALS LJÓSAKRÓNUR Útsala er að byrja
Glæsilegar kristalsljósakrónur í falleg heimili. Handskornar kristalsljósakrónu...
Vantar gæslu fyrir kisu/kisann?
www.kattholt.is rekur hótel fyrir kisu/kisann. kattholt@kattholt.is // s;567 ...
KRISTALL LJÓSAKRÓNUR
Ný sending af glæsilegum kristalsljósakrónum, veggljósum, matarstellum, kristals...
 
Hádegisfundur
Fundir - mannfagnaðir
ses.xd.is Samtök eldri sjálfstæði...
Mat á umhverfisáhrifum
Tilkynningar
Mat á umhverfisáhrifum Álit...
Frestun aðalfundar
Fundir - mannfagnaðir
Frestun aðalfundar ?? ??? ?????????...
Framhald uppboðs
Nauðungarsala
Uppboð Einnig birt á www.naudungarsolu...