Sarin eða sams konar efni var notað

Íbúar Parísar mótmæla notkun efnavopna í Sýrlandi.
Íbúar Parísar mótmæla notkun efnavopna í Sýrlandi. AFP

Yfirmaður alþjóðlegrar stofnunar sem vaktar notkun efnavopna í heiminum segir að „óvéfengjanlegar“ niðurstöður rannsóknar á efnavopnaárás í Sýrlandi sýni að sarin-gas eða sams konar efni hafi verið notað.

Tekin voru sýni úr 10 fórnarlömbum árásarinnar 4. apríl á bæinn Khan Sheikhun. Sýnin voru rannsökuð á fjórum rannsóknarstofum og gefa þau til kynna að fórnarlömbin hafi komist í snertingu við sarin eða sams konar efni, að sögn Ahmet Uzumcu, yfirmanns stofnunarinnar.

„Frekari niðurstöður úr rannsókninni koma síðar en niðurstöðurnar sem eru þegar komnar eru óvéfengjanlegar,“ sagði Uzumcu.

Að minnsta kosti 87 manns fórust í árásinni, þar á meðal fjöldi barna.

Ljósmyndir af fórnarlömbunum vöktu mikla reiði víða um heim.

Stjórnvöld í Sýrlandi hafa neitað því að hafa staðið á bak við árásina. 

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert