Ekki grunaður um aðild að árás

AFP

Sænska lögreglan hefur látið ungan mann lausan sem var handtekinn á sunnudag grunaður um að tengjast árásinni í Stokkhólmi fyrr í mánuðinum. Að sögn lögreglu liggur hann ekki lengur undir grun.

Fjórir létust, tveir Svíar, Belgi og Breti, þegar tæplega fertugur maður ók flutningabifreið inn í mannþröng á göngugötu í miðborginni 7. apríl.

Rakhmat Akilov, 39 ára gamall Úsbeki, hefur játað að hafa stolið og ekið flutningabílnum og situr hann í gæsluvarðhaldi. Rannsóknarlögreglan leitar enn mögulegra vitorðsmanna.

Engin hryðjuverkasamtök hafa lýst ábyrgð á árásinni en hún minnir mjög á árásir í Nice, Berlín og London undanfarið ár. Akilov, sem er fjögurra barna faðir, var synjað um dvalarleyfi í Svíþjóð í júní í fyrra. Hann fór í felur eftir að hafa fengið bréf um að vísa ætti honum úr landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert