Fundu 12 fanga í leyniklefa

12 manns fundust í leyniklefa á lögreglustöð á Filippseyjum. Leyniklefinn, sem var á stærð við skáp, var falinn bak við bókaskáp á stöðinni. Fundurinn hefur vakið enn frekari áhyggjur af misþyrmingu og öðrum brotum sem fylgja stríði Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, gegn fíkniefnum.

Það voru nefndarmenn í mannréttindanefnd ríkisstjórnar landsins, sem fundu klefann er þeir voru í óvæntri heimsókn ásamt fjölmiðlum í lögreglustöðinni sem er í einu af fátækari hverfum höfuðborgarinnar Manila.

„Við erum hér, hérna erum við,“ heyrðist hrópað bak við vegginn á lögreglustöðinni að sögn filippseyskra fjölmiðla. Í kjölfarið fundu nefndarmenn dyr faldar á bak við bókahillur sem leiddu að klefanum.

Fangarnir ultu út úr klefanum, sumir í tárum á meðan aðrir báðu um vatn og biðluðu til nefndarmanna að yfirgefa þá ekki.

Kröfðust greiðslna fyrir að láta fangana lausa

Sagði fólkið að það hefði verið í haldi í um viku vegna gruns um fíkniefnanotkun eða -sölu og að lögregla hefði krafist hárra greiðslna fyrir að láta það laust.

Fólkið valt út úr klefanum, sumir í tárum og aðrir …
Fólkið valt út úr klefanum, sumir í tárum og aðrir báðu um vatn og grátbáðu mannréttindanefndina að yfirgefa það ekki. AFP

„Þeir voru handteknir undir því yfirskyni að um fíkniefnabrot væri að ræða, en það var ekki búið að gefa út neinar ákærur,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Gilbert Boisner, framkvæmdastjóra mannréttindanefndarinnar sem fann fangana.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch segja fund leyniklefans vera enn eitt merki þeirra fjölmörgu mannréttindabrota sem fylgdi fíkniefnastríði Dutertes og að lögreglumenn nýttu sér stríðið til að hagnast á. Þúsundir meintra fíkniefnasala hafa þegar verið drepnir ýmist af lögreglu eða einstaklingum sem sagðir eru hafa tekið lögin í eigin hendur.

Vandi á fleiri lögreglustöðvum

Lögreglustjóri stöðvarinnar þar sem leyniklefinn fannst sagði fangana hafa verið setta þangað kvöldið áður. Honum hefur nú verið vikið frá störfum og sagðist lögreglustjóri Manila, Oscar Albayalde, telja að óréttmæt varðhaldsvist væri algeng.

„Við verðum að átta okkur á því að þetta er ekki bara vandi á þessari einu lögreglustöð heldur á næstum öllum lögreglustöðvum í héraðinu,“ sagði Albayalde.

Leyniklefinn á lögreglustöðinni í Tondo í Manila. 12 manns hafði …
Leyniklefinn á lögreglustöðinni í Tondo í Manila. 12 manns hafði verið troðið þangað inn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert