Hélt tvisvar að Madeleine væri fundin

Madeleine McCann var þriggja ára er hún hvarf. Sé hún …
Madeleine McCann var þriggja ára er hún hvarf. Sé hún á lífi er hún orðin þrettán ára. AFP

Blaðamaður, sem starfaði hjá BBC en gerðist fjölmiðlafulltrúi McCann-hjónanna eftir að dóttir þeirra Madeleine hvarf í Portúgal, segist tvisvar sinnum hafa verið viss um að stúlkan væri fundin. Á miðvikudag verða tíu ár frá því að hún hvarf, þá þriggja ára gömul.

„Tvisvar sinnum á þeim tíu árum sem ég hef unnið með McCann-hjónunum hef ég í fullri einlægni talið að við værum við það að finna dóttur þeirra, Madeleine,“ segir Clarence Mitchell í frétt á vef Telegraph.

Hann segir að fyrra skiptið hafi verið mjög fljótlega eftir að stúlkan hvarf. „Bresk stjórnvöld sendu mig til Portúgal til að aðstoða Kate og Gerry við að fást við fjölmiðlana sem höfðu gríðarlegan áhuga á málinu. Stuttu eftir að ég kom fór ég að fá símtöl reglulega frá manni sem endurtók nafn á sveitabæ þar sem hann sagði stúlkuna vera falda.“

Lögreglan tók símtölin upp og kannaði málið. Sveitabærinn reyndist til og passaði nákvæmlega við lýsingu mannsins. Hann var í nágrenni landamæranna að Spáni. Þar var gerð húsleit. „Ég taldi að við myndum finna eitthvað. En hún var ekki þarna og þessar ábendingar, eins og svo margar aðrar, reyndust bull.“

Ljóshærð stúlka í fjöllunum

Síðara skiptið var í lok árs 2007, um hálfu ári eftir að Madeleine hvarf. „Ég var þá að vinna sem fjölmiðlafulltrúi Kate og Gerry og þau voru komin heim til Leicestershire með tvíburana sína, Sean og Amelie. Þá fann einkaspæjari sem vann fyrir þau ljóshærða stúlku sem talaði ensku í þorpi í Atlas-fjöllunum í Marokkó. Allar þær upplýsingar sem við fengum bentu til að þetta væri Madeleine. Flugvél var fengin til að vera til taks, vélarnar í gangi og allt, til að sækja hana.“

Hann segir að McCann-hjónin hafi beðið frekari upplýsinga. Þau höfðu lært það af reynslunni að vera ekki of vongóð. Þau biðu eftir staðfestingu frá marokkóskum stjórnvöldum. Þegar hún kom reyndist ljóst að stúlkan var ekki Madeleine.

Mitchell segir að lögreglan hafi réttilega aldrei gefið upp nákvæmlega hvaða vísbendingum hún væri að fylgja við rannsókn málsins. Nú segist hann gera eins og foreldrar Madeleine, leyfa lögreglumönnunum að vinna vinnu sína áður en hann fyllist von á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert