Mættu táragasi og gúmmíkúlum

Mótmælendur freista þess að ganga að Taksim-torgi, þrátt fyrir bann …
Mótmælendur freista þess að ganga að Taksim-torgi, þrátt fyrir bann yfirvalda. AFP

Lögregla í Tyrklandi skaut táragasi og gúmmíkúlum að mótmælendum sem gerðu tilraun til að safnast saman á Taksim-torgi í Istanbul, til að fagna 1. maí. Mótmælendurnir voru um 200 talsins og báru borða með slagorðum gegn forsetanum Recep Tayyip Erdogan.

„Lengi lifi 1. maí, nei við einræðisherranum!“ stóð á borðunum.

Tyrknesk yfirvöld hafa lagt blátt bann við mótmælum á Taksim-torgi og hamlað umferð með vegartálmum. Tvær konur, sem freistuðu þess að breiða úr borðum á torginu, voru umsvifalaust handteknar.

Þá voru að minnsta kosti 13 aðrir handteknir, samkvæmt ríkisfréttastofunni Anadolu. Sumir þeirra klæddust bolum sem á stóð „Nei við Taksim-banninu“.

Óeirðarlögregla handtekur einn mótmælenda.
Óeirðarlögregla handtekur einn mótmælenda. AFP

Að minnsta kosti 60 voru handteknir í Besiktas-hverfinu, að sögn ljósmyndara AFP.

Um 30.000 lögreglumenn voru við eftirlit í Istanbul í dag og hvöttu yfirvöld fólk til að hunsa áskoranir um þátttöku í mótmælum. Lögregla hefur viðhaft strangt eftirlit með ferðamönnum og borgurum á Taksim-torgi og allar götur að torginu hafa verið lokaðar af.

Þá stoppa engar lestir við torgið, sem var miðpunktur hátíðarhalda borgarinnar 1. maí til ársins 1977, þegar 34 létu lífið í mótmælum. Torgið var seinna opnað aftur en lokað í kjölfar mótmæla stjórnarandstæðinga árið 2013. Erdogan var þá forsætisráðherra.

Lögregla skaut táragasi og gúmmíkúlum að mótmælendum. Nokkrir tugir voru …
Lögregla skaut táragasi og gúmmíkúlum að mótmælendum. Nokkrir tugir voru handteknir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert