Merkel og Pútín funda í dag

Pútín og Merkel hittust í Berlín á síðasta ári. Í …
Pútín og Merkel hittust í Berlín á síðasta ári. Í dag hittast þau í Sochi. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, mun funda með Vladimir Pútín, forseta Rússlands, í rússnesku borginni Sochi í dag. Þetta er fyrsta heimsókn Merkel til Rússlands í tvö ár.

Samskipti Rússlands og Þýskalands hafa verið nokkuð stirð síðustu misseri, m.a. vegna deilnanna í Úkraínu.

Að sögn þýskra stjórnvalda mun fundurinn að mestu leyti snúast um G20-ráðstefnuna sem fer fram í Hamborg í júlí. Ekki er búist við að fundurinn leiði af sér einhver tímamót í samskiptum þjóðanna.

Merkel hefur verið ötull stuðningsmaður viðskiptaþvingana Evrópusambandsins gegn Rússum eftir að þeir innlimuðu Krímskaga árið 2014. Rússar brugðust við með því að setja verslunarbann á landbúnaðarvörur frá Vesturlöndum.

Pútín fundaði með utanríkisráðherra Þýskalands í mars. Þá kallaði hann eftir því að samskipti þjóðanna myndu fara í eðlilegt horft sem fyrst. Merkel hefur verið helsti milligöngumaðurinn í deilum Rússa og Úkraínumanna. Hún átti í síðasta mánuði símafund með Pútín, forseta Úkraínu, Petro Poroshenko, og forseta Frakklands, Francois Hollande.

Þá voru þau sammála um mikilvægi þess að koma á friði í Austur-Úkraínu. Vesturlönd hafa sakað Rússa um að útvega uppreisnarmönnum í austurhluta Úkraínu vopn, eitthvað sem Rússar hafa alltaf neitað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert