Loksins dæmdir 15 árum síðar

Bilkis Bano kom fram á blaðamannafundi í dag.
Bilkis Bano kom fram á blaðamannafundi í dag. AFP

Bilkis Bano var nauðgað af hópi karla og hún horfði á fjórtán úr fjölskyldunni myrta þegar átök geisuðu milli trúarhópa í indverska héraðinu Gujarat árið 2002.

Fimmtán ára baráttu hennar fyrir að fá réttlætinu fullnægt lauk loks í síðustu viku þegar hæstiréttur Bombay staðfesti lífstíðardóm yfir 11 mönnum sem voru fundnir sekur um morðin og nauðgun.

Frá Gujarat 1. mars 2002.
Frá Gujarat 1. mars 2002. AFP

Hæstiréttur dæmdi einnig fimm lögreglumenn og tvo lækna seka en þeir voru í undirrétti sýknaðir af ákæru um að hafa eytt sönnunargögnum og spillt fyrir rannsókninni.

Bilkis Bano segir í samtali við BBC í Delí í gær að niðurstaðan hafi fyllt hana von um frið. Hún hafi alltaf haft fulla trú á dómskerfinu og hún sé þakklát hæstarétti fyrir að hafa staðist væntingar hennar. 

Gáfu lýðnum fullt frelsi

Hún segist telja að héraðsstjórnin og lögregla sé samsek því þeim ákærðu var gefið fullt frelsi til að nauðga og ræna og rupla. Hún segir réttlætinu fullnægt, ekki síst vegna þess að læknarnir og lögregluþjónarnir voru dæmdir fyrir sinn hlut. 

Barátta Bilkis Bano hefur standið lengi yfir og verið erfið. Hún segir að það hafi hins vegar aldrei komið til greina að gefast upp. Bæði lögreglumenn og starfsmenn héraðsins reyndu að ógna Bano, gögnum var eytt og þeir látnu voru greftraðir án þess að meinarannsókn færi fram. Læknarnir sem skoðuðu hana eftir árásina sögðu að henni hafi ekki verið nauðgað og hún fékk líflátshótanir. 

Þrátt fyrir alvarleika glæpsins og að hún hafi borið kennsl á árásarmennina voru fyrstu handteknir vegna málsins tveimur árum síðar eða árið 2004. Það var ekki gert fyrr en hæstiréttur Indlands ákvarðaði að málið yrði fært úr höndum Gujarat og sett í hendur miðlægrar rannsóknardeildar á vegum indverska ríkisins.

Jafnframt féllst hæstiréttur á beiðni hennar um að málið yrði ekki flutt fyrir dómi í Gujarat heldur í Mumbai vegna vanhæfi dómstóla í hennar heimabyggð. 

AFP

Barátta hennar fyrir að fá réttlætinu fullnægt hefur kostað sitt. Á síðustu fimmtán árum hefur hún og eiginmaður hennar, Yakub Rasool, flutt tíu sinnum með börnin sín fimm. 

„Við getum enn ekki farið heim þar sem við erum óttaslegin. Lögregla og stjórnkerfi ríkisins hafa alltaf staðið með árásarmönnum. Þegar við erum í Gujarat hyljum við andlit okkar og segjum engum hvar við búum,“ segir Rasool.

Árásin á Bilkis Bano og fjölskyldu hennar er ein sú alvarlegasta sem gerð var meðan á átökunum stóð. Upptök þeirra má rekja til þess að 60 hindúar í pílagrímaferð létust þegar kveikt var í farþegalest sem þeir voru farþegar í.

Múslímar voru sakaðir um að hafa kveikt í og réðust hindúar gegn múslímum. Ráðist var inn á heimili múslíma og heimili þeirra lögð í rúst.

Fyrstu þrjá dagana fékk skríllinn að hegða sér að vild. Lögregla og hið opinbera lét sem ekkert væri og á þessum þremur dögum létust yfir eitt þúsund manns í héraðinu, flestir þeirra voru múslimar.

Bilkis Bano lifði árásina af og eins ófætt barn hennar.
Bilkis Bano lifði árásina af og eins ófætt barn hennar. AFP

Núverandi forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, var ríkisstjóri í Gujarat á þessum tíma og var hann harðlega gagnrýndur fyrir að gera ekkert til þess að koma í veg fyrir blóðbaðið.

 Hann hefur alltaf neitað sök og hefur ekki beðist afsökunar. Hæstiréttur synjaði beiðni um að hann yrði saksóttur árið 2013 og bar því við að sönnunargögn skorti. 

Hafði ekki einu sinni tíma til að klæða sig í skó

Bilkis Bano var í heimsókn hjá foreldrum sínum sem bjuggu í þorpi sem nefnist Randhikpur, skammt frá Godhra þar sem kviknaði í lestinni. Hún var 19 ára og átti þriggja ára gamla dóttur og var þunguð af barni númer tvö.

„Þetta var morguninn eftir að kviknaði í lestinni. Ég var inni í eldhúsi að útbúa hádegismat þegar frænka mín og börn hennar komu hlaupandi. Þau sögðu að kveikt hefði verið í heimili þeirra og að við yrðum að forða okkur eins og skot,“ segir Bano í viðtali við BBC.

Þau forðuðu sér eins og þau voru klædd og Bano segir að hún hafi ekki einu sinni haft tíma til þess að klæða sig í skó.

Innan nokkra mínútna tæmdust öll heimili múslíma í hverfinu. Þær rúmlega 50 fjölskyldur sem þar bjuggu voru farnar og leituðu að öruggu skjóli.

Bilkis Bano var í hóp með 16 öðrum. Þeirra á meðal var dóttir hennar, móðir hennar, þunguð frænka hennar, yngri systkini hennar, frænkur og frændur og tveir fullorðnir menn.

„Við fórum fyrst til yfirmanns þorpsráðsins sem er hindúi og báðum um vernd. En þegar skríllinn hótaði að drepa hann líka ef hann skyti skjólshúsi yfir múslíma vorum við neydd til þess að fara.“

Næstu daga fóru þau á milli þorpa í leit að skjóli meðal annarra múslíma og hindúa en svo var komið að þeim. Að morgni 3. mars 2002 voru þau að leggja af stað til þorps sem þau töldu öruggara voru þau stöðvuð af hópi manna á tveimur jeppum. 

Þekkti alla árásarmennina 

„Þeir réðust á okkur með sverðum og prikum. Einn þeirra náði dóttur minni úr fanginu á mér  og henti henni í jörðina þar sem hann barði hana harkalega í höfuðið með grjóti,“ segir Bano í viðtali við BBC.

Bilkis Bano var skorin á höndum og fótum. Árásarmennirnir voru nágrannar hennar úr þorpinu sem hún ólst upp í. 12 menn sem hún hafði hitt nánast daglega þegar hún var að alast upp. Þeir rifu utan af henni fötin og nokkrir þeirra nauðguðu henni. Hún grátbað þá um miskunn og sagði þeim að hún væri komin fimm mánuði á leið. En hún talaði fyrir daufum eyrum.

Frænku hennar, sem hafði fætt stúlku tveimur dögum áður á flóttanum, var nauðgað og hún myrt. Nýfætt barn hennar var líka drepið. 

Það sem varð Bilkis Bano til lífs var að hún missti meðvitund og árásarmennirnir héldu að hún væri dáin þegar þeir fóru. Tveir drengir, sjö og fjögurra ára, voru þeir einu sem lifðu af árásina fyrir utan hana.

Þegar hún komst til meðvitundar skreið hún inn í helli þar skammt frá og faldi sig þar í einn sólarhring. Daginn eftir leitaði hún á náðir þorpsbúa þar skammt frá og bað um vatn. Að hennar sögn stóð þeim ekki á sama og veittu henni aðstoð þrátt fyrir að vera hræddir sjálfir.

Hún sá til lögreglu og fór með henni á næstu lögreglustöð þar sem hún lagði fram kæru. Eftir það bað hún lögreglu um að lesa kæruna upphátt fyrir sig en lögreglan neitaði. Þeir tóku bara fingrafar af mér og skrifuðu það sem þeim hentaði. Ég þekkti alla árásarmennina og nafngreindi en lögreglan hafði ekki einu sinni fyrir því að skrifa nöfnin niður.

Hún var í kjölfarið send í búðir í Godhra sem settar voru upp fyrir fórnarlömb óeirðanna. Þar fann eiginmaður hennar hana 15 dögum síðan. Þar bjuggu þau næstu mánuði og þar fæddist dóttir þeirra. Elsta dóttir þeirra lést hins vegar í árásinni.

Hefði ekki viljað dauðadóm yfir þeim en vildi að réttlætinu yrði fullnægt

Fyrir helgi staðfesti hæstiréttur dauðadóm yfir fjórum mönnum sem nauðguðu 23 ára konu svo hrottalega að hún lést af völdum áverkanna árið 2012. Ýmsir hafa velt fyrir sér hvers vegna þeir voru dæmdir til dauða en þeir sem nauðguðu Bano og drápu fjölskyldu hennar voru dæmdir í lífstíðarfangelsi. En Bano segir í samtali við BBC að hún trúi ekki á hefnd.

„Báðir glæpirnir eru jafn skelfilegir en ég er á móti því að fólk sé drepið. Ég hefði ekki viljað að þeir yrði dæmdir til dauða,“ segir hún. 

„Ég vil að þeir eyði því sem eftir er í fangelsi. Ég vona að einn góðan veðurdag átti þeir sig á ódæðinu sem þeir frömdu. Hvernig þeir drápu lítil börn og nauðguðu konum. Ég hef engan áhuga á hefnd. Það sem ég vil er að þeir skilji hvað þeir gerðu,“ segir Bano í viðtali við BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert