Lengi í haldi eftir að hafa verið sleppt

Stúlkurnar bíða þess að hitta forsetann.
Stúlkurnar bíða þess að hitta forsetann. AFP

Ein af skólastúlkunum frá Chibok neitaði að snúa aftur þegar stjórnvöld sömdu um lausn hennar við hryðjuverkasamtökin Boko Haram. Hún er í dag gift einum vígamanna samtakanna og segist hamingjusöm.

Garba Shehu, talsmaður nígeríska forsetaembættisins, sagði Boko Haram hafa samþykkt að sleppa 83 stúlkum í skiptum fyrir nokkra liðsmenn samtakanna en aðeins 82 skiluðu sér á laugardag.

Tuttugu og ein stúlka var frelsuð í október sl. en áður höfðu þrjár fundist eða tekist að sleppa. Fleiri en 200 skólastúlkum var rænt af Boko Haram í Chibok í apríl 2014. Viðræður standa yfir um frelsun þeirra rúmlega hundrað sem enn eru í haldi samtakanna.

Að sögn Shehu vinna yfirvöld að því að bera kennsl á stúlkurnar 82 til að koma þeim til fjölskyldna sinna eins fljótt og auðið verður. Listi með nöfnum stúlknanna og myndir voru sendar til Chibok á sunnudag.

Nokkur áhersla er lögð á auðkenninguna þar sem margar stúlknanna bera áþekk nöfn og þegar stúlkurnar tuttugu voru frelsaðar í október leiddi nafnaruglingur til þess að rangir foreldrar mættu til að taka á móti þeim.

Aisha Yesufu, verkefnastjóri hjá þrýstihópnum #BringBackOurGirls, sagði í samtali við AFP að hópurinn hefði sett sig í samband við foreldrana og ynni að því að tryggja að réttir foreldrar og dætur kæmu saman.

Stjórnvöld í Nígeríu hafa sætt nokkurri gagnrýni vegna þess hversu langan tíma það hefur tekið að koma stúlkunum aftur til síns heima og í desember kvörtuðu foreldrar undan því að stúlkunum sem hafði þá verið sleppt væri haldið í stað þess að leyfa þeim að fagna jólunum í faðmi fjölskyldunnar.

Fulltrúar Amnesty International sögðu á laugardag að það bætti aðeins ofan á þjáningar stúlknanna að halda þeim áfram. Shehu sagði hins vegar í samtali við AFP að stjórnvöld myndu ekki hindra neina foreldra frá því að setja sig í samband við dóttur sína.

Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, situr meðal stúlknanna 82 sem Boko …
Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, situr meðal stúlknanna 82 sem Boko Haram slepptu á laugardag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert