Héldu hugbúnaðargallanum leyndum

Edward Snowden.
Edward Snowden. AFP

Hefði Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) upplýst um veikleika í Windows-stýrikerfum þegar stofnunin fann hann hefði mögulega verið hægt að koma í veg fyrir tölvuárásina sem hófst í gær og teygt hefur anga sína um allan heim.

Þetta segir Edward Snowden sem efturlýstur er af bandarískum stjórnvöldum fyrir að hafa lekið upplýsingum árið 2013 um víðtækar njósnir NSA. Snowden hefur síðan haldið til í Rússlandi eftir að hann flúði Bandaríkin á sínum tíma. Þar var honum veitt hæli sem var framlengt um þrjú ár í janúar á þessu ári.

Frétt mbl.is: Hugbúnaðinum stolið frá NSA

Hugbúnaðurinn sem notaður var við tölvuárásina er talinn hafa verið hannaður af NSA til þess að nýta sér umræddan veikleika. Hugbúnaðinum var stolið frá NSA af hópi tölvuhakkara sem kallast The Shadow Brokers sem síðan reyndi að selja hann í uppboði á netinu. Þeir gerðu hugbúnaðinn síðan aðgengilegan hverjum sem vildi nota hann.

„Þrátt fyrir viðvaranir smíðaði NSA hættulegt árásartæki sem hægt er að nota gegn vestrænum hugbúnaði. Núna sjáum við afleiðingarnar,“ segir Snowden. Bandaríkjaþing ætti að hans mati að inna NSA eftir því hvort stofnunin viti af fleiri slíkum veikleikum í hugbúnaði sem hægt væri að notfæra sér með þessum hætti.

Snowden er ekki einn um að gagnrýna NSA fyrir að bera ákveðna ábyrgð á árásinni. Sama á til að mynda við um breska netöryggissérfræðinginn Graham Cluley: „Bandaríska njósnastofnunin fann öryggisgalla í hugbúnaði Microsoft en í stað þess að gera það rétta og láta fyrirtækið vita héldu þeir upplýsingunum fyrir sig sjálfa og notfærðu sér þær í þeim tilgangi að njósna. Síðan voru þeir sjálfir hakkaðir.“ Þá fyrst hafi Microsoft gert eitthvað í málinu.

Fram kemur í frétt Daily Telegraph að NSA hafi ekki tjáð sig um tölvuárásina.

mbl.is