Sagði skólastúlku að „fokka sér“

James Heappey.
James Heappey.

Þingmaður Íhaldsflokksins hefur beðist afsökunar á því að hafa sagt skoskum nemanda að „fokka sér“ þegar stúlkan sagðist myndu segja ef gengið yrði til annarrar atkvæðagreiðslu um aðskilnað Skotlands frá Bretlandi.

James Heappey, sem berst nú fyrir þingsæti sínu í Wells, lét ummælin falla í kappræðum við framhaldsskólanema í Millfield-skólanum í Somerset í mars sl., áður en boðað var til fyrirhugaðra kosninga.

Að sögn Heappey var ummælunum ætlað að vera á léttum nótum og þá neitaði hann því að hafa sagt stúlkunni að „fokka sér aftur til Skotlands“. Sagðist hann hafa skrifað stúlkunni um leið og skólinn leitaði til hans með umkvörtun hennar og beðist afsökunar.

Samkvæmt Guardian greindi stúlkan föður sínum frá orðaskiptum sínum við þingmanninn. Faðirinn, sem ku vera stuðningsmaður Skoska þjóðarflokksins, leitaði í kjölfarið til skólans.

Wells er mikilvægt kjördæmi fyrir íhaldsmenn en Heappey berst um þingsætið við frjálslynda demókratann Tessu Munt. Munt sagðist forviða á ummælum Heappey þar sem skólarnir ættu að vera öruggt svæði fyrir nemendur.

Skoski þjóðarflokkurinn hefur kallað eftir því að Íhaldsflokkurinn láti Heappey fjúka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert