Meirihluti vill óháða rannsókn á Rússatengslum

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Vladimír Pútín, forseti Rússlands. Þeim …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Vladimír Pútín, forseti Rússlands. Þeim Bandaríkjamönnum fer fjölgandi sem vilja óháða rannsókn á meintum samskiptum framboðs Trumps og rússneskra ráðamanna. AFP

Meirihluti Bandríkjamanna er þeirrar skoðunar að þörf sé á óháðri rannsókn á því hvort tengsl hafi verið milli rússneskra ráðamanna og Donald Trumps Bandaríkjaforseta er hann var í framboðsbaráttu sinni. Þetta er niðurstaða nýrrar skoðanakönnunar sem Ipsos gerði fyrir Reuters-fréttastofuna.

Þeim repúblikönum sem eru því fylgjandi að slík rannsókn verði gerð fer þá fjölgandi að sögn fréttastofunnar.

Skoðanakönnunin var gerð eftir að Trump rak James Comey, forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI, og bendir hún að sögn Reuters til þess að vaxandi óvissu gæti hjá bandarískum almenningi með möguleg afskipti Rússa af forsetakosningunum.

Kröfur þingmanna Demókrataflokksins um óháða rannsókn hafa þá orðið enn háværari eftir að Trump rak Comey.

Samkvæmt könnuninni telja 59% aðspurðra að „þingið eigi að hefja óháða rannsókn á samskiptum rússneskra stjórnvalda og framboðs Trumps í aðdraganda kosninganna 2016“. Þegar hlutföll kjósenda eftir stjórnmálaskoðunum eru skoðuð, sést að 41% repúblikana eru þessarar skoðunar og 79% demókrata.

Þegar sambærileg könnun var gerð í febrúar vildu 54% óháða rannsókn á málinu, þar af 30% repúblikana og 81% demókrata.

„Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að halda lengur,“ hefur Reuters eftir John Kremer, einum stuðningsmanna Trump í Alabama. Hann vill nú að óháð rannsókn verði gerð, þótt hann telji Trump ekki hafa átt í ólöglegum samskiptum við Rússa. Hann er hins vegar ósáttur við það hvernig forsetinn tekur á málinu.

„Ef Comey hefði ekki verið rekinn hefði ég verið sáttur við niðurstöðu þeirrar rannsóknar,“ sagði Kremer. „Áhyggjur mínar núna snúa að því hvort Trump sé að reyna að draga úr vægi rannsóknarinnar.“

Í könnuninni var einnig spurt um traust fólks til þings og framkvæmdavalds og virðist hafa dregið úr því. Eftir forsetakosningarnar í nóvember sögðust 36% aðspurðra ekki bera neitt traust til framkvæmdavaldsins, en nú voru 43% þessarar skoðunar. Í nóvember voru 30% sömu skoðunar varðandi þingið, en í þessari könnun var fjöldinn kominn upp í 37%.

mbl.is