Mótmæla aðhaldsaðgerðum stjórnvalda

Mótmælendur gengu að þinghúsinu í Aþenu til að mótmæla síðustu …
Mótmælendur gengu að þinghúsinu í Aþenu til að mótmæla síðustu aðhaldsaðgerðum stjórnvalda. AFP

Þúsundir Grikkja gripu til verkfallsaðgerða í dag og tóku þátt í mótmælum gegn aðhaldsaðgerðum stjórnvalda. Aðgerðirnar, sem eru að kröfu erlendra lánastofnana, hafa vakið mikla reiði hjá almenningi, en með þeim verða eftirlaunasjóðir Grikkja m.a. skertir í 13. skipti frá árinu 2010 og þá voru skattleysismörk lækkuð.

Gríska þingið mun greiða atkvæði um aðhaldsaðgerðirnar á morgun, en þær eru taldar nauðsynlegar eigi stjórnvöld að fá 86 milljarða björgunarpakka frá alþjóðlegum lánastofnunum, þann þriðja á sjö árum og sem þau þurfa nauðsynlega á að halda eigi þau að standa skil af greiðslum fyrri lána.

Mótmælin fóru að mestu friðsamlega fram, en þó kom til átaka milli lögreglu og mótmælenda á stöku stað. Að sögn Reuters-fréttastofunnar gengu að minnsta kosti 15.000 manns að þinghúsinu, m.a. eftirlaunaþegar, kennarar, læknar og lögfræðingar, með skilti sem stóð á: „Nei við niðurskurði, já við skuldaaðstoð!“ og „Skilið aftur réttindum sem þið stáluð frá okkur!“

Atvinnuleysi í Grikklandi nálgast 25% og atvinnuleysi meðal ungmenna er í kringum 48%.

„Við vorum blekkt. Við trúðum loforðum þeirra,“ sagði Nikos Moustakas, einn mótmælendanna. „Þeir eru búnir að missa mig sem kjósanda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert