Flugu of hratt og nálægt vélinni

Ein af orrustuþotum Bandaríkjahers. Kínversku orrustuþoturnar flugu nálægt bandarísku vélinni …
Ein af orrustuþotum Bandaríkjahers. Kínversku orrustuþoturnar flugu nálægt bandarísku vélinni og flugu á hvolfi fyrir ofan hana. AFP

Tveimur kínverskum orrustuþotum af gerðinni Sukhoi Su-30 var flogið til móts við flugvél Bandaríkjahers með „óviðeigandi hætti“ að því er CNN-sjónvarpsstöðin hefur eftir talsmanni hersins.

Þoturnar voru næst 45 metra frá flugvélinni og flugu á hvolfi fyrir ofan hana. Bandaríkjaher segir vél sína hafa verið á svæðinu við mælingar á geislavirkni og að hún hafi verið í alþjóðlegri lofthelgi þegar kínversku þoturnar mættu henni.    

Spenna hefur aukist í samskiptum Kína og Bandaríkjanna í kjölfar ferða Bandaríkjahers um Suður- og Austur-Kínahaf undanfarið, en hafsvæðið er auðugt af auðlindum.

Atburðurinn átti sér stað á miðvikudag og telst „óviðeigandi vegna nálægðar orrustuvélanna og hversu mikilli ferð þær voru á,“ að því er CNN hefur eftir Lori Hodge, talsmanni flughersins. Málið sé nú rætt eftir diplómatískum leiðum, auk þess sem hernaðarrannsókn sé í gangi.

Kínversk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert