Fordæma loftárásir Bandaríkjamanna

Fjórir skriðdrekar eru sagðir hafa verið í för með bílalestinni …
Fjórir skriðdrekar eru sagðir hafa verið í för með bílalestinni sem loftárásin var gerð á. AFP

Stjórnvöld í Sýrlandi og Rússlandi hafa fordæmt loftárásir Bandaríkjahers og bandamanna þeirra Sýrlandsmegin við landamæri Jórdaníu. Sagði í yfirlýsingu sýrlenskra stjórnvalda þetta vera „óskammfeilna árás á sveitir sem berðust gegn hryðjuverkum.“ Ráðamenn í Rússlandi sögðu árásina vera „óásættanlega“ og brot gegn fullveldisstjórn Sýrlands.

Árásin var gerð á fimmtudag á bílalest sem nálgaðist hóp uppreisnarmanna sem njóta stuðnings Bandaríkjahers og vestræna sérsveit í Tanf.

Fréttavefur BBC hefur eftir bandarískum yfirvöldum að þau hafi varað Rússa við áður og að viðvörunarskotum hafi verið skotið, en að þau hafi ekki verið virt.

Maghaweer al-Thawra uppreisnarhópurinn, sem nýtur stuðnings Bandaríkjahers, sagði bílalestina hafa verið í um 27 km fjarlægð og að fjórir skriðdrekar hefðu verið með í för.

Að sögn embættismanns hjá Bandaríkjaher brást bílalestin ekki við fjölda viðvarana og var komin „of nærri sveitum bandamanna“.

Í yfirlýsing sem sýrlenska ríkisfréttastofan Sana birti frá stjórn landsins, sagði að loftárásirnar hefðu beinst gegn fjölda hernaðarstaða. Margir hefðu farist og eitthvert eignatjón hefði orðið. Herinn myndi þó ekki láta skelfa sig til að láta af skyldum sínum gagnvart hryðjuverkaógninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert