Ökumaðurinn heyrði raddir

Tæknideild lögreglu rannsakar staðinn þar sem Rojas keyrði inn í …
Tæknideild lögreglu rannsakar staðinn þar sem Rojas keyrði inn í mannfjöldann. AFP

Richard Rojas, maðurinn sem ók inn í hóp gangandi vegfarenda við Times Square í gær með þeim afleiðingum að einn lést og 22 særðust, heyrði raddir. Þetta hefur BBC eftir lögreglumönnum í New York.

Rojas er fyrrverandi sjóliði í bandaríska sjóhernum. Hann hafði verið handtekinn nokkrum sinnum fyrir ölvunarakstur á undanförnum árum og var fyrr í þessum mánuði handtekinn fyrir að ógna manni með hnífi. Lögregla telur hann hafa verið í maríjúanavímu er hann ók á fólkið.

AP-fréttastofan hefur eftir heimildamönnum að Rojas, sem nú er í haldi lögreglu, hafi ekki búist við að lifa þetta af. „Þið áttuð að skjóta mig! Ég vildi drepa þau,“ á Rojas að hafa sagt þegar hann var handtekinn.

Hann var tvo mánuði í herfangelsi í Suður-Karólínuríki árið 2013, en ekki hefur verið gefið upp fyrir hvaða glæp. 2012 réðst hann á leigubílstjóra á flotastöð í Flórída. Hrópaði hann í kjölfarið „lífi mínu er lokið“ og hótaði að drepa lögreglu sem kom á vettvang. Hann var þá ákærður fyrir að beita vægu ofbeldi og að sýna lögreglu mótþróa án þess að beita ofbeldi.

Einn nágranna Rojas sagði hann hafa átt við áfengisvanda að stríða eftir að hann lauk veru sinni í sjóhernum. „Hann átti mjög erfitt. Ekki láta hann virðast vera hryðjuverkamann eða eitthvað slíkt. Hann þjónaði landi sínu og þegar hann kom aftur heim kom enginn honum til aðstoðar,“ sagði nágranninn Harrison Ramos.

Vegfarendur hlúa að fólki sem varð fyrir bílnum. 22 slösuðust …
Vegfarendur hlúa að fólki sem varð fyrir bílnum. 22 slösuðust og einn lést þegar Rojas ók upp á gangstéttina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert