Úr öskunni í eldinn?

Assange í desember 2012. Hann hefur fengið hæli í Ekvador …
Assange í desember 2012. Hann hefur fengið hæli í Ekvador en þyrfti að komast þangað án þess að lenda í klóm breskra yfirvalda, sem munu mögulega framselja hann til Bandaríkjanna, verði þess óskað. AFP

„Þetta eru ekki málalok sem koma á óvart í sjálfu sér; það var eiginlega engin önnur niðurstaða möguleg í þessu máli.“ Þetta segir Kristinn Hrafnsson, fyrrverandi talsmaður Wikileaks og samstarfsmaður Julian Assange, um ákvörðun sænska ákæruvaldsins að láta kynferðisbrotarannsókn sína gegn Assange niður falla.

Þrátt fyrir að Assange sé nú laus allra mála gagnvart Svíþjóð bíða hans önnur átök.

„Nú liggur allt annað fyrir,“ segir Kristinn en í fyrsta lagi sé enn í gildi handtökuskipun gegn honum í Bretlandi. „Hann var s.s. laus gegn tryggingu og braut gegn þeim skilmálum þannig að það þarf að afgreiða það mál.

Í heildarsamhenginu er það nú minni háttar mál en það er líka svo að bresk stjórnvöld hafa neitað að staðfesta hvort það sé komin fram framsalsbeiðni frá bandarískum stjórnvöldum. Það hafa borist fréttir af því í gegnum tíðina að það sé búið að gefa út með leynd innsiglaða handtökuskipun gegn Julian en það hefur ekki fengist staðfest og það er ljóst að það er fullur vilji af hálfu bandarískra stjórnvalda að lögsækja hann og fleiri innan Wikileaks.“

Kristinn vísar þarna til orða Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sem sagði í apríl sl. að það væri forgangsmál að hafa hendur í hári Assange. Í fréttum miðla vestanhafs var greint frá því að unnið væri að því að undirbúa ákærur á hendur honum og fleiri einstaklingum tengdum Wikileaks.

Að sögn Kristins er ómögulegt að segja til um það hvort Bandaríkjamenn hafa þegar farið fram á framsal Assange frá Bretlandi til Bandaríkjanna en samkvæmt breskum lögum hafi framsalsbeiðnin frá Svíþjóð haft forgang þar sem hún var lögð fram á undan.

„En [framsalsbeiðni] getur verið tilbúin á korteri,“ segir Kristinn. „Þannig að þetta er eitthvað sem er erfitt að vita og mögulega liggur einhvers staðar inni í breska stjórnkerfinu.“

„Farið að glitta í fésið á mönnum“

Kristinn segist hafa heimildir fyrir því að lögmenn Assange í Lundúnum hafi litlar áhyggjur af tryggingarbrotinu en annað gildi um „einbeittan ásetning bandarískra stjórnvalda og dómsmálaráðuneytisins um að lögsækja Wikileaks.“

„Það hefur alltaf verið meginmálið; það er ástæðan fyrir því að [Assange] spyrnti við fótum gagnvart Svíþjóð, því engin trygging fékkst frá Svíþjóð um að hann yrði ekki áframsendur þaðan til Bandaríkjanna.“

Algjör óvissa ríkir því um örlög Assange. Lundúnarlögreglan hefur þegar gefið út að hann verði handtekinn ef hann yfirgefur sendiráðið og jafnvel þótt mál hans gagnvart breskum yfirvöldum sé auðleyst þá er óvíst hvort hann yrði látinn laus ef Bandaríkjamenn fara fram á framsal.

„Nú þegar sænska málið er úr sögunni þá er hreint og klárt að einbeita sér að því að reyna að koma upplýsingum úr stjórnkerfinu í Bretlandi og e.t.v. Bandaríkjunum líka um stöðu málsins þar,“ segir Kristinn. „Þar er búin að vera sakarannsókn í gangi í sjö ár, þ.e.a.s. í Bandaríkjunum, sem snýr að Julian og reyndar fleirum, þeirra á meðal mér, og allt bak við luktar dyr.

Miðað við þessi ummæli sem ég vísaði í áðan, frá Jeff Sessions, þá má ætla að það sé farið að glitta í fésið á mönnum í þessum efnum og hvað þeir ætla sér í raunveruleikanum, þannig að þetta er skref í rétta átt að losna við þetta sænska mál úr myndinni alfarið.“

Kristinn Hrafnsson segir sakarannsókn í gangi í Bandaríkjunum gegn Assange …
Kristinn Hrafnsson segir sakarannsókn í gangi í Bandaríkjunum gegn Assange og öðrum starfsmönnum Wikileaks, þeirra á meðal honum sjálfum. AFP

„Eitthvað einstaklega óheilt“

Hvað varðar rannsóknina sænsku segir Kristinn gögn málsins „makalausa“ lesningu. Um væri að ræða konu sem hefði leitað til lögreglunnar um ráðgjöf og aðstoð við að fá Assange til að gangast undir kynsjúkdómarannsókn en hún hefði gengið út í sjokki, að eigin sögn, þegar saksóknarinn á vakt ákvað að hún hefði orðið fyrir nauðgunarbroti.

„Hún hefur aldrei viljað leggja fram kæru,“ segir Kristinn. „Það liggja fyrir gögn í málinu sem sýna að hún fór af fundi lögreglu og sleit yfirheyrslum yfir sér þegar hún áttaði sig á því í hvaða farveg málið var að fara. Hún leit svo á að lögreglan hefði tekið völdin í málinu og væri að þvinga því í ákveðinn farveg.“

Að sögn Kristins liðu ekki tólf tímar þar til búið var að gefa út frumákæru og handtökuskipun. Stuttu síðar birti Expressen forsíðufrétt um málið. Hann segir ljóst að það hafi aldrei staðið steinn yfir steini í málinu gegn Assange.

En telur hann þá að sænsk yfirvöld hafi verið að ganga erinda bandarískra stjórnvalda?

„Það hefur læðst að mér sá grunur að það væri eitthvað einstaklega óheilt á bak við öll þessi vinnubrögð,“ segir Kristinn. „Það er á engan hátt eðlilegt að á sama tíma og saksóknaraembætti neitaði að taka skýrslu af Julian í London, við skulum halda því til haga að hann hefur aldrei verið ákærður fyrir eitt eða neitt; handtökubeiðnin var til að fá hann í skýrslutöku, þá var hann að senda í tugi skipta fulltrúa sinn í sambærilegar skýrslutökur í London.

Þannig að þetta hélt aldrei vatni, þær skýringar sem haldið var á lofti, og það var ekki fyrr en í raun að saksóknarinn er þvingaður til að fá lúkningu í rannsókn málsins með því að taka skýrslu af Julian í London sem skriður komst á. En síðan eru liðnir sjö eða átta mánuðir og þar með átti að vera kominn fyrir löngu endapunktur í málinu og enn þurfti að bíða núna til sumars eftir því að málið er fellt niður.“

Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir það forgangsmál að hafa hendur …
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir það forgangsmál að hafa hendur í hári Assange. AFP

 „Baráttujaxl“

Kristinn er ekki lengur starfsmaður Wikileaks í fullu starfi en sinnir einstaka verkefnum fyrir samtökin. Hann segist tala „endrum og eins“ við Assange og gerir ráð fyrir að ræða við hann síðar í dag.

Síðast heyrði hann í Assange fyrir um þremur vikum.

Hvernig bar hann sig?

„Ja eins og menn bera sig þegar þeir eru búnir að vera lokaðir inni allan þennan tíma, án þess að komast undir bert loft,“ segir Kristinn. „Auðvitað hefur þetta áhrif en hann er baráttujaxl og kann að kljást við kringumstæður sem eru erfiðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert