Viðræður hefjist daginn eftir kosningar

Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB.
Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB. AFP

Evrópusambandið vill að viðræður við Bretland um úrsögn Breta úr sambandinu hefjist strax daginn eftir þingkosningarnar þar í landi sem fram fara 8. júní. Aðalsamningamaður Evrópusambandsins, Michel Barnier, sagði á Evrópuþinginu að sambandið vildi að viðræðurnar hæfust „eins fljótt og mögulegt sé, daginn eftir kosningarnar.“

Haft er eftir Barnier á fréttavefnum Euobserver.com að verkefnið sé ærið og snúist um að byggja upp framtíðartengsl á milli Bretlands og sambandsins. Skapa þyrfti traust á milli aðila málsins og tryggja að útganga Bretlands yrði með skipulögðum hætti. Evrópusambandið vildi semja við Breta en ekki á móti þeim eins og hann orðaði það.

„Við erum að fara að vinda ofan af 44 ára samruna,“ sagði Barnier. „Enginn ætti að vanmeta afleiðingar þess, við þurfum að segja almenningi sannleikann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert