Voru með leynilega áætlun gegn Le Pen

Hópur ráðherra og hátt settra embættismanna var með viðbragðsáætlun yrði …
Hópur ráðherra og hátt settra embættismanna var með viðbragðsáætlun yrði Marine Le Pen kjörin forseti. AFP

Hefði Marine Le Pen farið með sigur af hólmi í frönsku forsetakosningunum í stað Emmanuael Macrons hefði leynilegri viðbragðsáætlun verið hrint af stað. Áætlunin var aldrei fest á blað, né heldur fékk hún eitthvert sérstakt nafn, en henni var ætlað að „verja lýðveldið“, hefur franska tímaritið l‘Obs eftir ónefndum hátt settum embættismanni.

„Hugmyndin þar að baki og það mikilvægasta var að halda friðinn, en á sama tíma að virða stjórnarskrána,“ hefur l‘Obs eftir heimildamanni sínum.

Fjallað er um málið á vef Guardian í dag.

L’Obs vitnar í þrjá ónefnda heimildamenn sem þekktu til áætlunarinnar og segja hana hafa verið útbúna af litlum hópi ráðherra, starfsmannastjóra í ráðuneytum og nokkrum æðstu embættismönnum ríkisins. Beindist áætlunin að því að koma í veg fyrir alvarlegar óeirðir og átti að „frysta“ stjórnmálaástandið fram yfir þingkosningar, með því að kalla þing saman til neyðarsetu og tryggja þar með áframahaldandi setu þáverandi forsætisráðherra, Bernard Cazeneuve.

Eru lögregla og leyniþjónusta sagðar hafa haft miklar áhyggjur af miklum óeirðum og ofbeldi frá öfgavinstrimönnum yrði Le Pen kjörin forseti. Voru taldar líkur á að landið yrði á barmi upplausnar færu kosningarnar á þann veg.

Dagblaðið Le Parisien segir frönsku leyniþjónustuna hafa lýst því í minnisblaði fyrir fyrri umferð forsetakosninganna að „án undantekningar hafi hver einasti stjórnandi öryggismála í landinu lýst yfir áhyggjum“ af málinu.

Heimildir l'Obs segja lögreglu einnig hafa varað við því fyrir síðari umferð kosninganna að mótmælendur væru reiðubúnir að beita flugeldum, eldsprengjum og sprengjuvörpum ef í harðbakkann slægi.

Segir Guardian áhyggjurnar af óstöðugleika og stjórnleysi í frönskum stjórnmálum, með Le Pen við stjórnvölinn, hafa verið miklar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina