Allt nema tómat, takk!

Binali Yildirim og Dmitry Medvedev á ráðstefnu Svartahafsríkjanna í dag.
Binali Yildirim og Dmitry Medvedev á ráðstefnu Svartahafsríkjanna í dag. AFP

Stjórnvöld í Rússlandi samþykktu í dag að aflétta viðskiptaþvingunum gegn Tyrklandi sem komið var á í kjölfar þess að rússnesk herþota var skotin niður yfir landamærum Tyrklands og Sýrlands árið 2015.

Umdeilt bann við innflutningi tyrkneskra tómata verður þó áfram í gildi.

Samkomulagið um afléttingu viðskiptaþvingananna var undirritað á hliðarlínum ráðstefnu leiðtoga ríkja við Svartahaf, af Mehmet Simsek, aðstoðarforsætisráðherra Tyrklands, og rússneskum kollega hans, Arkady Dvorkovich.

Viðstaddir voru forsætisráðherrarnir Binali Yildirim og Dmitry Medvedev.

Yildirim sagði að þvingunum Rússa í greinum á borð við byggingariðnað, ráðgjöf og ferðamennsku yrði aflétt í þessum mánuði. Þá yrði banninu við innflutningi ávaxta, grænmetis og alifuglakjöts aflétt innan viku.

Ráðherrann viðurkenndi hins vegar að bann rússneskra yfirvalda við innflutningi tyrkneskra tómata yrði áfram í gildi. Um er að ræða umtalsverða hagsmuni en áður kom um helmingur allra tómata sem rússneskir neytendur neyttu frá Tyrklandi.

„Við höfum tryggt verulegan ávinning varðandi allt nema tómatana. Við höfum deilt áhyggjum okkar vegna tómatamálsins,“ sagði Yildirim.

Ráðherrann gekkst við því að tómaturinn væri orðinn nokkurs konar táknmynd.

„Hvað varðar tómatinn þurfum við meiri tíma.“

Rússar freista þess nú að auka eigin tómataframleiðslu og rússneskir miðlar höfðu eftir Medvedev að tómatabannið yrði áfram í gildi til að standa vörð um fjárfestingar í framleiðslu tómata.

Tómatur.
Tómatur. mbl.is/Ásdís
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert