Neita að innleiða tilskipun ESB í fyrsta skipti

Norðmenn ætla ekki að taka upp reglugerð frá ESB um …
Norðmenn ætla ekki að taka upp reglugerð frá ESB um þyrfluflug. Norden.org

Ríkisstjórn Noregs mun ekki innleiða tilskipun frá Evrópusambandinu um samevrópskt regluverk varðandi þyrluumferð meðfram strandlengju landa. Þetta er í fyrsta skipti sem Noregur neitar að innleiða afleidda löggjöf sambandsins á grundvelli EES-samningsins, en frá árinu 1994 hafa 11 þúsund reglugerðir og tilskipanir verið innleiddar þar í landi.

Samgönguráðherra hefur hins vegar gefið það út að jákvæðir þættir umræddrar reglugerðar verði teknir upp í norskri löggjöf. Greint er frá þessu á vef Aftenposten.

Reglugerð um þyrluumferð hefur verið mjög umdeild í Noregi og hefur henni verið mótmælt, meðal annars af norskum þyrluflugmönnum og starfsmönnum olíuborpalla.

Rökin fyrir því að neita því að innleiða reglugerðina eru meðal annars þau að erfiðar aðstæður geti skapast við strendur Noregs á veturna og það krefjist mikillar kunnáttu og viðeigandi búnaðar að fljúga þar í miklum vindi. Þar af leiðandi sé nauðsynlegt að þeir sem fljúgi yfir norska landgrunnið fari eftir norskum lögum og reglum.

Með þessu vilja norsk yfirvöld reyna að koma í veg fyrir fleiri þyrluslys á borð við það sem varð við Turøy á síðasta ári þar sem 13 manns fórust, allt starfsmenn á olíuborpalli á vegum Statoil.

mbl.is