Fleiri handtökur í Manchester

Lögregla hefur lokað af svæði við Moss Side þar sem …
Lögregla hefur lokað af svæði við Moss Side þar sem leitað er í dag. AFP

Breska lögreglan handtók í dag 25 ára gamlan mann í Old Trafford, úthverfi Manchester, í tengslum við hryðjuverkaárásina í borginni á mánudag. 22 létu lífið og 116 særðust þegar Salm­an Abedi sprengdi sig í loft upp í Manchester Ar­ena-tón­leika­höll­inni.

Alls hafa því 14 verið handteknir í tengslum við málið í Bretlandi, og eru 12 enn í haldi. 

Leita í húsi í Moss Side

Á öðrum stað í borginni hefur lögregla fengið leitarheimild og leitar nú í húsi í Moss Side. Fólk sem býr í nágrenninu segist hafa heyrt sprengingu fyrr í dag, en lögregla hefur ekki svarað því hvort fjarstýrð sprengja hafi verið notuð til að komast inn í húsið. Lögregla hefur lokað götum þar í kring.

Fyrr í dag sagði inn­an­rík­is­ráðherra Bret­lands, Am­ber Rudd, að fleiri sam­verka­menn Abedis gangi hugs­an­lega enn laus­ir. Sagði hún rann­sókn máls­ins er vera í full­um gangi og ekki væri hægt að ganga úr skugga um að öll kurl væru kom­in til graf­ar fyrr en rann­sókn­inni væri lokið. Sagði hún að hryðju­verka­sam­tök­in Ríki íslams væru að reyna að fá unga Breta til liðs við sig.

Birtu myndir af Abedi

Breska lög­regl­an birti í dag mynd­ir úr ör­ygg­is­mynda­vél­um af Abedi. Mynd­irn­ar eru tekn­ar skömmu fyr­ir árás­ina. Lög­regl­an hef­ur einnig sagt frá því sem hún hef­ur kom­ist að varðandi síðustu klukku­stund­irn­ar í lífi Abedi áður en hann framdi hina hroðal­egu árás. Enn er óskað eft­ir frek­ari upp­lýs­ing­um um hvar Abedi var dag­ana fyr­ir árás­ina og hvað hann hafðist að.

Abedi var af líb­ísk­um upp­runa en fædd­ur og upp­al­inn í Manchester. Faðir hans og bróðir hafa verið hand­tekn­ir í Líb­íu vegna rann­sókn­ar máls­ins.

Lög­regl­an seg­ir að rann­sókn­in gangi vel og biðlar nú til al­menn­ings að láta vita ef hann veit eitt­hvað um ferðir Abedi síðustu daga eða frá 18. maí er hann sneri aft­ur til Bret­lands. Um þúsund lög­reglu­menn í Bretlandi vinna að rann­sókn máls­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert