Birta nýja mynd af Salman Abedi

Lögregla hefur beðið þá sem kunna að hafa séð Abedi …
Lögregla hefur beðið þá sem kunna að hafa séð Abedi á ferð með töskuna að hafa samband. Ljósmynd/Lögreglan í Manchester

Breska lögreglan hefur birt nýja mynd af Salman Abedi, sem varð 22 að bana með sjálfsvígssprengju á tónleikum bandarísku söngkonunnar Ariönu Grande í Manchester Arena-tónleikahöllinni í síðustu viku.

Á myndinni sem lögregla birti í dag sést Abedi með bláa ferðatösku. Biður lögregla þá sem kunna að hafa séð Abedi, eða einhvern sem gæti verið hann, á ferð með töskuna dagana 18-22 maí að hafa samband.

BBC hefur einnig komist yfir mynd úr eftirlitsmyndavél sem sýnir Abedi í verslun daginn áður en hann framdi árásina.

Abedi var á ferð í nágrenni Wilmslow Road í Manchester og í miðborginni með töskuna að sögn lögreglu, sem nú stendur fyrir viðamikilli leit í landfyllingu í úthverfi Bury í nágrenni Manchester.

„Ég vil ítreka að þetta er önnur taska en hann notaði við árásina,“ segir Ross Jackson, yfirmaður hryðjuverkadeildar lögreglu.

„Við höfum enga ástæðu til að telja að taskan og innihald hennar innihaldi eitthvað hættulegt, en við biðjum fólk engu að síður að gæta varúðar.“

Lögregla hefur staðið fyrir leit í Whalley Range í Manchester, Chester og Shoreham-by-Sea og Vestur-Sussex þar sem 23 ára karlmaður var handtekinn grunaður um hryðjuverkatengsl. Þá stendur einnig yfir leit í Rusholme-hverfinu í Manchester.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert