Vopnaður maður skotinn við Tivoli

AFP

Danska lögreglan skaut og særði vopnaðan mann sem beindi byssu að lögreglumanni við Tivoli í Kaupmannahöfn nú fyrir skömmu.

Búið er að handtaka tvo einstaklinga í tengslum við málið. Lögreglan telur þó að um einangrað tilfelli sé að ræða og að fleiri séu ekki viðriðnir málið, er haft eftir Peter Olsen Dahl aðstoðarlögreglustjóra á fréttavef Politiken.

Lögreglan fékk tilkynningu um málið klukkan 17:36, en þá hafði maður dregið upp skotvopn og beint því að lögreglumanni við H.C. Andersen götu, skammt frá Tivoli. Lögreglumaðurinn skaut manninn strax, en fleiri en einu skoti var hleypt af. Lögreglan vill þó ekki gefa upp hve mörgum. Ekki er gefið upp hvort byssumaðurinn er alvarlega slasaður, en lögreglumaðurinn er ómeiddur.

Lögreglan hefur girt af svæðið og lokað H.C. Anderson götu í miðbæ Kaupmannahafnar ásamt nokkrum hliðargötum. Þungvopnaðir lögreglumenn og tugir lögreglubíla eru á svæðinu. Þá eru lögreglumenn með hunda að kemba svæðið í kring.

Fram kemur í frétt Politiken að lögregla hafi ekki viljað gefa upp hvort byssumaðurinn sé þekktur af lögreglunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert