Pútín tjáir sig um kvöldverðinn með Flynn

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir að sér hafi ekki verið kunnugt, …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir að sér hafi ekki verið kunnugt, er þeir sátu hlið við hlið, að Flynn væri fyrrverandi njósnari. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segist varla hafa talað við Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjanna, er þeir sátu saman í kvöldverðarboði í Moskvu 2015.

Tengsl Flynns við Moskvu sæta nu rannsókn hjá bandarísku alríkislögreglunni og rannsóknarnefndum Bandaríkjaþings. Mynd af þeim Pútín og Flynn sitjandi hlið við hlið hefur ítrekað birst í fjölmiðlum undanfarið og hefur þótt gefa í skyn náin tengsl þeirra á milli.

Flynn hefur neitað að bera vitni fyrir rannsóknarnefnd þingsins.

„Ég flutti ræðu mína. Síðan ræddum við um eitthvað annað dót og svo fór ég,“ sagði Pútín í viðtali við bandarísku NBC sjónvarpsstöðina, sem birt var í dag og kvað um hefðbundið kvöldverðarboð að ræða.

Honum hafi síðan verið sagt á eftir að í boðinu hafi verið bandarískur herramaður sem hafi áður verið í leyniþjónustunni.

„Það var allt og sumt. Ég talaði varla við hann. Það er umfang kynna minna af hr. Flynn,“ sagði Pútín.

Umrætt kvöldverðarboð var haldið fyrir rússnesku sjónvarpsstöðina Russia Today, sem nýtur fjárstuðnings frá rússneska ríkinu og sem bandarísk yfirvöld telja vera áróðursstöð þar sem birtar séu misvísandi og rangar upplýsingar um Bandaríkin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert