Hentu ungbarni út á ferð

AFP

Níu mánaða gamalt stúlkubarn lést þegar því var hent út úr Tuk Tuk-vagni á ferð í Nýju-Delí, höfuðborg Indlands, í lok síðasta mánaðar. Barninu var kastað úr vagninum af karlmönnum sem höfðu skömmu áður hópnauðgað móður þess.

Fram kemur í frétt AFP að barnið hafi látist vegna höfuðáverka að sögn lögreglu en móður þess var nauðgað í útjaðri borgarinnar. Móðir barnsins er um tvítugt og sagði hún lögreglunni að henni hafi verið nauðgað eftir að hún steig upp í vagninn með dóttur sína í kringum miðnætti 29. maí á leið til heimilis foreldra sinna. Fyrir í vagninum voru tveir karlmenn auk bílstjórans. 

Kynferðisofbeldi gegn konum er landlægt á Indlandi og ekki síst í höfuðborginni. Þannig var tilkynnt um 2.199 nauganir í borginni árið 2015 eða að meðaltali sex á dag. Tilkynnt er um tæplega 40 þúsund nauðganir á hverju ári í landinu en raunverulegur fjöldi er talinn vera miklu hærri þar sem fórnarlömb veigra sér oft við að tilkynna slíkar árásir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert