Lögregla skaut mann við Notre Dame

Fjölmennt lið lögreglu er á vettvangi.
Fjölmennt lið lögreglu er á vettvangi. AFP

Lögreglan í París var kölluð út við Notre Dame-dómkirkjuna nú síðdegis. Þar skaut og særði franskur lögreglumaður karlmann sem hafði ráðist á annan lögreglumann með hamri. Búið er að rýma svæðið og girða það af. Lögreglan er með mikinn viðbúnað.

Lögreglan hefur hafið rannsókn á því hvort þetta hafi verið tilraun til hryðjuverka. 

Eins og sést á þessari ljósmynd hefur lögreglan í borginni …
Eins og sést á þessari ljósmynd hefur lögreglan í borginni girt af svæðið við Notre Dame-dómkirkjuna. AFP

AFP-fréttaveitan hefur eftir heimildarmanni að lögreglumaðurinn sem varð fyrir árásinni hafi aðeins hlotið minniháttar áverka. Félagi lögreglumannsins beindi síðan skotvopni að árásarmanninum og hóf skothríð. 

Hér að neðan má fylgjast með beinni útsendingu fréttastöðvarinnar France 24.

 

Ekki liggur fyrir hvers vegna maðurinn réðist á lögreglumanninn. Sjónarvottur sagði í í samtali við AFP að hann hefði heyrt einhvern öskra mjög hátt. Þá byrjaði fólk að flýja og margir urðu mjög skelkaðir. Sjónarvotturinn segist hafa heyrt tvo skothvelli og síðan séð mann liggja á jörðinni í blóði sínu. 

Myndir hafa birst á samfélagsmiðlum sem sýnir almenning halda uppi höndum, en talið er það hafi verið fyrirskipun frá lögreglunni. 

Fram kemur á vef breska ríkísútvarpsins, að yfirvöld hafi hvatt almenning til að halda sig fjarri. Notre Dame er á meðal vinsælustu ferðamannastaða Parísar.

Franska lögreglan hefur lokað götum á meðan málið er til …
Franska lögreglan hefur lokað götum á meðan málið er til rannsóknar. AFP

Hæsta viðbúnaðarstig hefur verið í gildi frá því vopnaðir íslamistar myrtu 130 í árás í París árið 2015.

Þá hefur einnig verið mikill viðbúnaður í Frakklandi vegna hryðjuverkaárásarinnar sem var gerð í Lundúnum um helgina þar sem þrír árásarmenn óku niður vegfarendur og réðust á fólk með hnífum. Sjö létust í árásinni, þar á meðal einn Frakki. 

Franska ríkissjónvarpið segir að mikil skelfing og ringulreið hafi skapast við kirkjuna þegar atvikið átti sér stað. Margir áttu fótum sínum fjör að launa þegar fólk reyndi að komast í skjól.

Þann 20. apríl var lögreglumaður skotinn til bana við Champs-Elysees breiðgötuna í París, þremur dögum fyrir forsetakosningarnar þar í landi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert