Börnin borin heim í líkkistum

Horriya er tólf ára. Hún er komin í flóttamannabúðir eftir …
Horriya er tólf ára. Hún er komin í flóttamannabúðir eftir að hafa lagt á flótta frá Raqqa. Ljósmynd/UNICEF/Souleiman

Hin nítján ára gamla Reem hugsaði sig vel og vandlega um áður en hún tók þá erfiðu ákvörðun að flýja borgina Raqqa í Sýrlandi fyrir um þremur vikum. Dag einn, rétt fyrir miðnætti, tók hún tíu mánaða gamla dóttur sína og örfáar eigur þeirra og hóf ferðalagið. Aðstæður mæðgnanna áttu enn eftir að versna áður en þær bötnuðu.

Framlög heimsforeldra UNICEF eru ómetanleg við neyðaraðstæður eins og þessar. Í dag er dagur rauða nefsins og í kvöld verður sérstakur söfnunarþáttur í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu.

Neydd til að giftast frænda sínum

Reem var neydd til að giftast frænda sínum er hún var aðeins sextán ára gömul. Eiginmaðurinn yfirgaf hana er hún var ólétt og nú hefur hún fyrir sér og dóttur sinni, Sadil, að sjá.

„Það var aldrei draumur minn að giftast svona ung,“ segir Reem. „Ég vildi halda áfram að mennta mig og fara í háskóla. En ógiftar stúlkur í Raqqa eru neyddar til að giftast [vígamönnum Ríkis íslams] svo að foreldrar mínir vildu vernda mig með því að láta mig giftast frænda mínum.“

Reem og dóttir hennar eru meðal um 40 þúsund íbúa Raqqa sem hafa neyðst til að flýja borgina í kjölfar harðnandi átaka síðustu vikna. Frá því í nóvember í fyrra hefur ofbeldið færst í vöxt og 107 þúsund manns eru á vergangi af þeim sökum. Ítrekaðar árásir á borgina hafa lagt innviði hennar í rúst. Líf þúsunda hefur gjörbreyst til hins verra.

Skárri kostur af tvennu illu

En ofbeldi er ekki eina ástæðan fyrir því að fólk er að flýja heimili sín. Börn og heilu fjölskyldurnar hafa þjáðst gríðarlega síðustu fjögur ár. Fólk er atvinnulaust og án matar. Hjálparstarf hefur reynst erfitt því aðgangur mannúðarsamtaka að borginni er mjög heftur vegna átakanna. Sameinuðu þjóðirnar náðu síðast að koma hjálpargögnum til borgarbúa í október árið 2013.

Vegna yfirráða vígamanna Ríkis íslams hefur daglegu lífi borgarbúa verið umturnað. Þeir hafa lítinn sem engan aðgang að menntun, heilbrigðisþjónustan er í molum og matvæli hafa rokið upp í verði.

„Í borginni minni voru pennar og blöð bönnuð,“ útskýrir Reem. „Mæður og nýfædd börn þeirra deyja því þær þurfa að fæða heima án læknisaðstoðar. Börn stíga á jarðsprengjur og deyja. Börn allt niður í níu ára aldur eru þvinguð til að ganga til liðs við sveitir vígamanna og eru látin berjast. Þau snúa aftur til fjölskyldna sinna í líkkistum. Þetta er ekki lífið sem ég vil að dóttir mín kynnist.“

Hún segist því hafa valið skárri kostinn af tveimur slæmum. „Annaðhvort varð ég að láta dóttur mína búa við þetta, án aðgangs að heilbrigðisþjónustu, menntun og venjulegri barnæsku, eða taka áhættuna og flýja.“

Hættuför yfir eyðimörkina

Reem slóst í för með nokkrum nágrönnum sínum á flóttanum. Þau óku lengst inn í eyðimörkina, fóru í vesturátt klukkutímum saman í átt að Al-Jurneyyeh. Hópurinn dvaldi í tvær nætur í búðum í eyðimörkinni áður en hann hélt hættuför sinni áfram fótgangandi.

„Við urðum að ganga í gegnum jarðsprengjusvæði,“ segir Reem og hin hræðilega minning um þá för rifjast hratt upp fyrir henni. „Ég hélt á dóttur minni og hugsaði með sjálfri mér að við gætum dáið hvað úr hverju í sprengingu.“

Hin tólf ára gamla Hiba ásamt fjölskyldu sinni flúði Raqqa …
Hin tólf ára gamla Hiba ásamt fjölskyldu sinni flúði Raqqa fyrir nokkrum dögum. Leiðin var hættuleg en nú er fjölskyldan komin í flóttamannabúðir.

Síðan þurfti hópurinn að vaða í gegnum löng, dimm göng sem voru full af vatni. Í þrjá tíma gengu þau bogin í baki í gegnum göngin. Vatnið náði þeim upp að mitti.

„Ég bar dóttur mína á bakinu svo að hún gleypti ekki vatnið,“ segir Reem. „Hún grét alla leiðina í gegnum göngin þar til hún örmagnaðist og sofnaði.“

Þegar Reem kom loks í öryggi Mabrouka-flóttamannabúðanna biðu hennar harðneskjulegar aðstæður. Í tíu daga fékk flóttafólki varla vott né þurrt og þurfti að sofa undir berum himni, án þess að hafa svo mikið sem teppi til að skýla sér fyrir næturkuldanum.

Reem og Sadil héldu því för sinni áfram og náðu til borgarinnar Qamishli í síðustu viku. Þar ætlar Reem að reyna að hefja nýtt líf, í fjarlægð frá þeirri áþján sem hún hafði áður búið við.

Hefur nýtt líf fjarri hörmungum

„Ég vil að allur umheimurinn átti sig á því hversu mikið við höfum þjáðst,“ segir Reem. „Ég vil einnig að hann viti af því nýja lífi sem ég hef nú hafið,“ bætir hún við brosandi. „Ég ætla að halda áfram skólagöngu minni og fara í háskóla. Ég ætla að láta drauma mína rætast svo að ég geti boðið sjálfri mér og dóttur minni upp á mannsæmandi líf.“

Framlög heimsforeldra UNICEF eru ómetanleg við neyðaraðstæður eins og þessar. Í dag er dagur rauða nefsins og í kvöld verður sérstakur söfnunarþáttur í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu. Markmiðið er að safna fleiri heimsforeldrum sem í sameiningu aðstoða börn í hrikalegum aðstæðum, m.a. í Írak, Jemen, Sýrlandi og víðar.

Hér getur þú gerst heimsforeldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert